FRAMKVÆMDASTJÓRN Evrópusambandsins, ESB, hét í gær að hefja málssókn gegn frönsku stjórninni vegna þeirrar ákvörðunar hennar að aflétta ekki banni við innflutningi bresks nautakjöts.

FRAMKVÆMDASTJÓRN Evrópusambandsins, ESB, hét í gær að hefja málssókn gegn frönsku stjórninni vegna þeirrar ákvörðunar hennar að aflétta ekki banni við innflutningi bresks nautakjöts. Búist er við, að deilan muni varpa nokkrum skugga á leiðtogafund ESB, sem hefst í Helsinki í dag.

Franska stjórnin tilkynnti í fyrradag, að banninu yrði ekki aflétt vegna þess, að ekki væri öruggt, að kjötið bæri ekki með sér kúariðusmit. Reyndu Frakkar þó að gera sem minnst úr málinu en Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og aðrir ráðherrar brugðust ókvæða við. Þá sagði David Byrne, sem fer með hollustu- og neytendamál í framkvæmdastjórninni, að líklega yrði tekin ákvörðun um málshöfðun nk. þriðjudag. Yrði Frökkum fyrst gefinn fimm daga frestur til að standa fyrir sínu máli en síðan yrði það látið Evrópudómstólnum í hendur.

Lionel Jospin, forsætisráðherra Frakklands, sagði, að ákvörðunin hefði verið tekin með hagsmuni neytenda fyrir augum og benti hann á, að Þjóðverjar hefðu ekki aflétt banninu. Þeir hyggjast hins vegar gera það eftir áramótin hafi þá samist um nákvæmari vörumerkingar.