[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unglingagamanmyndin "Detroit Rock City" segir af fjórum ungmennum á áttunda áratugnum sem reyna allt sem þeir geta til þess að verða sér úti um miða á tónleika hljómsveitarinnar Kiss.

Unglingagamanmyndin "Detroit Rock City" segir af fjórum ungmennum á áttunda áratugnum sem reyna allt sem þeir geta til þess að verða sér úti um miða á tónleika hljómsveitarinnar Kiss. Það gengur heilmikið á við þær framkvæmdir og ungmennin, sem Edward Furlong, Giuseppe Andrew, Sam Huntington og James De Bello leika, lenda í hinum undarlegustu málum þar sem koma við sögu skilningssljóir foreldrar og hin illu áhrif diskósins.

Leikstjóri myndarinnar er Adam Rifkin en með önnur hlutverk í henni fara Natasha Lyonne, Lin Shaye, Melanie Lynskey að ógleymdum hljómsveitarmeðlimum Kiss, Gene Simmons, Peter Criss, Ace Frehley og Paul Stanley, sem leika sjálfa sig en þess má geta að Gene Simmons er einn af framleiðendum myndarinnar.

Myndin segir þroskasögu ungmennanna á áttunda áratugnum en handritið gerði Carl Dupre. "Mér fannst það vera einskonar blanda af "American Graffiti" og "Rock ‘n' Roll High School"" segir leikstjórinn Rifkin um handritið. "Hinir fullorðnu geta farið á myndina og rifjað upp hvernig var að vera unglingur á áttunda áratugnum og myndin höfðar einnig til unglinganna því þeir hafa lítið breyst."

Og Rifkin heldur áfram: "Þetta er mynd um andóf unglinganna, um það að vita hvað maður vill gera við líf sitt, um það að storka yfirvaldinu. Þetta gæti allt eins verið saga um fjóra stráka sem eru hrifnir af Bítlunum eða fjóra stráka sem finnst U2 æðisleg eða fjóra vini sem hlusta á Elvis vegna þess að þetta er fyrst og fremst þroskasaga um fjóra stráka sem standa á tímamótum í lífi sínu. Unglingsárin verða senn að baki og við taka fullorðinsárin og þeir þroskast heilmikið þessa einu nótt sem er sögutími myndarinnar."

Kunnastur hinna ungu leikara sem fara með aðalhlutverkin í "Detroit Rock City" er Edward Furlong sem ungur fékk það verkefni að leika á móti Arnold Schwarzenegger í framtíðartryllinum Tortímandanum 2. Síðan hefur Furlong farið með stór og smá hlutverk í fjölda mynda. "Þeir eru engir smákrakkar," segir leikarinn um félagana fjóra sem myndin fjallar um, "en þeir eru heldur ekki orðnir fullorðnir og fullir ábyrgðar. Þeir hafa engar sérstakar áhyggjur í lífinu eða því sem framtíðin ber í skauti sér, hvað verður úr þeim. Þeir vilja bara komast á þessa tónleika. Og þegar maður á allt lífið framundan er stundum gott að taka það mátulega alvarlega og njóta þess að vera ungur og skella sér út í ævintýrin."