Bjarni Bjarnason
Bjarni Bjarnason
BJARNI Bjarnason hefur sent frá sér bókina Næturvörður kyrrðarinnar, sem er sjálfstætt framhald Borgarinnar á bak við orðin, skáldsögu hans frá því í fyrra.

BJARNI Bjarnason hefur sent frá sér bókina Næturvörður kyrrðarinnar, sem er sjálfstætt framhald Borgarinnar á bak við orðin, skáldsögu hans frá því í fyrra. Í Næturverði kyrrðarinnar er saga drengsins Immanúels rakin áfram; enginn veit hvaðan Immanúel kemur eða hver hann raunverulega er, en sögur hans um framandi ríki sveipa hann ljóma og heilla fólk. Þá er bókmenntatímaritið Andblær komið út í níunda sinn en Bjarni er einn þeirra höfunda sem hvað ötullegast hafa unnið að framgangi þess á undanförnum árum og situr að þessu sinni í ritstjórn þess.

,,Í Næturverði kyrrðarinnar er Immanúel orðinn unglingur, kominn í tölu fulltíða manna. Hann stundar þá vinnu að segja konum sögu sína en í raun og veru vænta þær meira af honum. Hann er að reyna að losa sig við fortíðina og þessar sögur sem fylgja honum um ríkið sem hann telur sig koma frá. En svo verður hann hrifinn af stúlku sem trúir á þessar gömlu sögur, og hún getur ekki elskað hann nema hann trúi sjálfur á sögur sínar. Því neyðist hann til þess til að missa hana ekki. Á sama tíma getur hann ekki sagt henni hvað hann starfar. Þetta er nógu erfitt fyrir hann samt bætist það ofan á hann að atburðirnir í ríkinu verða æ stormasamari, það virðist þokast nær uppgjöri þar."

Frá hvaða ríki kemur Immanúel? Er þetta veröld sem við könnumst við eða er ríkið kannski handan þess heims sem við þekkjum?

,,Hann kemur frá þessu persónulega ríki sem við komum öll frá, því ríki sem við eigum í draumum okkar, okkar eigin ríki eða okkar eigin persónulega heimi. Þetta ríki hans virðist vera raunverulegra en það sem við lifum í dags daglega. Þess vegna sækir fólk í að hlusta á hann."

Er þetta ríki þá veraldlegt eða byggist það á andlegum veruleika. Ég á við hvort þetta sé ríki líkamans eða sálarinnar?

,,Ríki sálarinnar! Ég geri aldrei upp við mig hvort þetta ríki sé hugarburður okkar sjálfra eða hvort það er raunverulegra en það ríki sem við búum í eða hvort það tengist einhverjum handan heims veruleika. Ég set söguna þannig fram að aðalsöguhetjan standi fyrir sál lesandans, með því að segja lesir þú lengra ert þú að selja sál þína, reyni ég að gera lesandann ábyrgan fyrir lestri sínum. Þú sögunnar er lesandinn sjálfur. Það er sál lesandans sem er í húfi."

Og nú er listatímaritið Andblær komið út í níunda sinn, litskrúðugt og fjörlegt að vanda. Á forsíðunni gefur að líta frú Hillary Clinton í faðmi íslenskra fjalla. Að baki hennar gnæfir sjálf hálendisdrottningin Herðubreið. Má líta svo á að þessar tvær drottningamyndir hafi veitt ritnefndinni andlega uppörvun við starfið?

Þetta hefti Andblæs er innblásið af Hillary Clinton. Hún fór um landið eins og stormsveipur og blés okkur í brjóst lýðræðisleg vinnubrögð.

Fjörutíu aðilar koma nærri heftinu, ljóðskáld, myndlistarmenn og rithöfundar. Helsta nýjungin er að galleríið sem búið er að vera þróast síðan 1997 er orðið viðameira og myndirnar eru birtar í lit. Það má kannski fara að kalla þetta tímarit um bókmenntir og myndlist. Andblær hefur síðastliðin ár þróast æ meira í þá átt að vera sameiginlegur vettvangur rithöfunda og myndlistarmanna en fulltrúar þessara tveggja listgreina sitja nú saman í ritnefndinni. Hitann og þungann af starfinu ber þó ritstjórinn sem að þessu sinni er Margrét Lóa Jónsdóttir skáldkona."

,,Þú hefur tvo diska fyrir framan þig fulla af mat. Á hvorum diski um sig er jafn mikið af fæðu, á báðum er nákvæmilega jafn mikið magn af næringarefnum og vítamínum, á báðum er jafn ferskur og hollur matur. En rétturinn á öðrum diskinum er fallegur og bragðgóður en á hinum fráhrindandi og bragðlaus. Spurningin er:

Af hvorum réttinum verðurðu saddari?

Þetta er eina spurning heimsins."

Súsanna hugsaði sig um skamma stund en kvað svo uppúr:

,,Þú verður vitanlega saddari af þeim góða því hann gefur þér ekki bara næringu heldur líka ánægju."

Þú hristir höfuðið og sagðir henni svarið.

Úr Næturverði kyrrðarinnar.

Bjarni Bjarnason