Höfundur: Annika Thor. Íslensk þýðing: Sigrún Ástríður Eiríksdóttir Æskan, 1999 -147 s.

ANNIKA Thor er sænskur gyðingur og skrifaði sína fyrstu bók árið 1996. Sú bók, og þær tvær sem á eftir fylgdu, fjölluðu um gyðingastúlku og afdrif hennar á stríðsárunum. Sú bók sem hér kemur í íslenskri þýðingu kom fyrst út árið 1997 og byggist á kvikmynd með sama nafni og var Annika líka höfundur handritsins. Hér fjallar höfundur um mjög viðkvæm mál, vináttu og einelti og þau félagslegu vandamál sem fylgja því að tapa vini, vera útskúfaður úr hópnum og að ekki sé talað um allan þann sviða og kvöl sem fylgir því að enginn vilji vera vinur manns. Bókin fékk svokallaðan "Augustpris" sem besta barna- og unglingabókin í Svíþjóð árið 1997 og einnig var kvikmyndahandritið tilnefnt til verðlauna.

Sagan fjallar um Nóru sem er 12 ára og bekkjarfélaga hennar. Sabína, sem hefur verið hennar besta vinkona, er skyndilega búin að missa áhugann á henni og fá sér aðra vinkonu. En það er líka önnur stelpa í bekknum, Karin, sem hefur tekið út kynþroska á undan hinum og er með of stór brjóst að þeirra mati. Hún er líka feimin og á öðruvísi fjölskyldu en hin. Það er ekki að sökum að spyrja að hún er lögð í einelti og líf hennar gert ákaflega ömurlegt. Sagan er sögð frá sjónarhóli Nóru sem sér mjög vel hvað hennar eigin framkoma, og ekki síður félaganna, er slæm en hún hefur samt ekki kjark í sér til að standa ein með þessari stúlku en vill miklu frekar forðast hana.

Heiti bókarinnar vísar til leiks, þar sem viðkomandi á að velja hvort hann vill segja sannleikann um eitthvert mál, eða taka áhættu. Þeir sem stjórna leiknum geta ráðið hvers konar þraut viðkomandi þarf að leysa og leikurinn er því ósanngjarn ef leikstjórinn hefur illt í huga.

Hér er fjallað um vináttu og svik, þar sem unglingur tekur þátt í einhverju sem samviskan býður að sé rangt. Það er síðan erfitt að horfast í augu við afleiðingar gerða sinna þegar þær reynast mjög alvarlegar. Bókin er hlutlaus, en skörp lýsing á sálarlífi stúlku sem upplifir höfnun meðal sinna eigin vina, en í ákafanum og lönguninni til að vera með í hópnum særir hún aðra mannveru miklu meira en efni standa til. Í allri þeirri umræðu sem nú á sér stað um einelti er þessi bók ágætis innlegg í vangaveltur um þetta andfélagslega fyrirbrigði.

Sigrún Klara Hannesdóttir