Tryggvi Harðarson
Tryggvi Harðarson
Félagsmálaráðuneytið þarf að gefa skýr svör um, segir Tryggvi Harðarson, hvernig skuli fara með fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélaganna.

GLÓRULAUS hallarekstur og gríðarleg skuldaaukning stefnir nú fjárhagslegri afkomu Hafnarfjarðarbæjar í voða. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ætlar sér að reka bæjarsjóð með um 1.200.000.000 kr. halla þriðja árið í röð samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2000. Með því hækka nettóskuldir bæjarsjóðs, eða ígildi þeirra, nálægt einum milljarði króna á næsta ári og samtals um 2,5 milljarðar króna á þremur árum eða um rétt tæp 70%.

Tvígreitt fyrir vatnið

Þegar horft er framhjá innantómu orðagjálfri um faglega fjarmálastjórn og blekkingarleiki meirihlutans blasir nöturlegur raunveruleikinn við. Þannig breytir það engu fyrir Hafnarfjarðarbæ þótt stofnað sé sérstakt fyrirtæki, Vatnsveita Hafnarfjarðar, og hún látin taka með sér 700 milljón kr. skuld frá bænum. Sú skuld á sér enga stoð í raunveruleikanum og er að öllum líkindum brot á lögum um þjónustugjöld. Með því er í reynd verið að láta neytendur tvígreiða fyrir sama hlutinn.

Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun meirihlutans kemur aðeins fram hluti þeirra framkvæmda sem bærinn hyggst ráðast í. Þar vantar inn í talnagrunninn byggingu tveggja leikskóla á næsta ári og tveggja grunnskóla á næsta eina og hálfa árinu. Varlega reiknað má áætla að byggingakostnaður vegna þessa verði um 500 milljónir á næsta ári. Skiptir þá engu hvort um svokallaða einkaframkvæmd verður að ræða eins og meirihlutinn stefnir að. Hin fjárhagslega skuldbinding verður líklega svipuð ef ekki meiri en ef farin væri hefðbundna leiðin. Hér er því á ferðinni enn einn blekkingarleikur og sýndarveruleikinn.

Ná lög til "einkaframkvæmda"

Þótt að í framlagðri fjárhagsáætlun meirihlutans komi fram að framkvæmdir verði 24,42% af skatttekjum bæjarins verður það hlutfall mun hærra. Samkvæmt 65. gr. sveitarstjórnalaga skal fara fram sérstök úttekt óháðs aðila á fjármálum sveitarfélags sé framkvæmdakostnaður umfram 25% af skatttekjum. Það þarf því augljóslega að láta fara fram slíka útttekt. Séu fjárfestingar undir formerkjum einkaframkvæmda teknar með, eins og fram kom hér að framan, verða þær um 40% af skatttekjum en ekki tæp 25%.

Nokkuð hefur borið á því að einstök sveitarfélög eru að reyna að koma sér undan því að sýna í bókhaldi fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Það hefur verið gert með kaupleigusamningum og nú síðast eru einkaaframkvæmdir að ryðja sér til rúms í einhverjum mæli. Þetta vandamál hefur verið til umræðu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar virðist það vera samdóma álit manna sem best til þekkja að það gangi ekki að sveitarfélögin setji sig í stórfelldar fjárhagslegar skuldbindingar án þess að þess sjáist stað í bókhaldi þeirra. Voru þessi mál rædd sérstaklega á síðasta fulltrúaráðsfundi Sambandsins.

Hvert er álit ráðamanna þjóðarinnar?

Þá snýr þetta mál ekki síður að löggjafanum og ráðuneyti sveitarstjórna, félagsmálaráðuneytinu. Þaðan verða að fást skýr svör um hvernig skuli fara með fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélaganna og hvort ,,einkaframkvæmdir" skuli undanþegnar almennum sveitarstjórnarlögum um fjárfestingar og bókhald.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa báðir látið í það skína að helsti efnahagsvandi þjóðarinnar nú um stundir sé að sveitarstjórnarmenn kunni fótum sínum ekki forráð í fjármálum. Þeim hlýtur því að vera kappsmál um að fá þessi mál í lag svo ekki verði hægt að ráðast í milljarðaframkvæmdir án þess að þess sjáist nokkurs staðar stað í fjárhagsáætlunum sveitarsjóða eða ársreikningum. Þeir hafa að vísu einkum beint spjótum sínum að Reykjavíkurborg en væri kannski nær að kanna hvað flokksbræður þeirra eru að gera í fjármálum Hafnarfjarðarbæjar. Ég kalla því eftir áliti ráðamanna þjóðarinnar í þessum efnum og reyndar hef ég ásamt samfylkingarfélögum mínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sent félagsmálaráðuneytinu fyrirspurnir um þessi efni og við bíðum svara.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.