KONA hafði samband við Velvakanda og vildi koma því á framfæri hvílíkt böl Rauða kross-spilakassarnir væru. Hún á sautján ára strák sem er forfallinn spilasjúklingur.

KONA hafði samband við Velvakanda og vildi koma því á framfæri hvílíkt böl Rauða kross-spilakassarnir væru. Hún á sautján ára strák sem er forfallinn spilasjúklingur. Hann er búinn að eyða allri sumarhýrunni í þá og er kominn með þunglyndiseinkenni af þessu. Hann hætti í skóla og vinnur bara af og til og ef hann eignast pening, fara þeir í spilakassa. Foreldrar hans standa orðið ráðalausir gagnvart þessu. Hann er búinn að leita til Hjálparstofnunar kirkjunnar, meðferðarheimilisins að Teigi og SÁÁ og ekkert gengur. Móðir hans fer fram á það spilakössunum verði lokað og það strax. Er það þess virði fyrir Rauða krossinn að græða á spilafíkn annarra til þess að geta hjálpað öðrum?

Áhyggjufull móðir.

Ruglingur á dúkum

8. október sl. var tilbúinn dúkur hjá Þvottahúsinu A. Smith. Dúkurinn er ljós á litinn og úr hör, hann er saumaður í kring með bláu og svo eru útsaumuð blóm. Hann var merktur í einu horninu RT-65. Það hafa einhver mistök á sér stað við afgreiðslu dúksins, því eftir varð dúkur merktur SS-28. Ef einhver kannast við að hafa ljósan hördúk merktan RT-65, er hann vinsamlegast beðinn að koma honum til skila í Þvottahús A. Smith.

Umfjöllun um Tryggingastofnun

Í Velvakanda 5. desember sl. lýsir Böðvar seinagangi Tryggingastofnunar við afgreiðslu örorkumats og útgáfu örorkuskírteinis. Leitt er þegar svo illa tekst til sem hann lýsir, en ýmislegt ófyrirséð kom til. Fyrst þurfti að endursenda læknisvottorð vegna formgalla. Síðan varð nokkurra daga stífla í tölvukerfi, enda þótt í tölvum kæmi fram að mál væru afgreidd. Þar mun mál Böðvars hafa "legið" og töfin stafa fyrst og fremst af því. Þegar svo slík stífla brestur verður nokkur holskefla, sem sést af því, að 29. nóvember voru send út til umboða 95 mál og að líkindum ekki færri til hinna ýmsu lífeyrissjóða. Böðvar kveðst hafa orðið fyrir aukaútgjöldum vegna þessa dráttar. Honum er bent á, að hann á endurkröfurétt á Tryggingastofnun vegna þess, sem hann hefur ofgreitt. Loks má geta þess, að bótagreiðslur eru óháðar því, hvort viðkomandi hafi örorkuskírteini í höndum eða ekki, þannig að þegar Böðvar segir, að engu hafi munað að hann fengi ekki bætur sínar í desember vegna vöntunar skírteinisins er það á misskilningi byggt. Starfsfólk Tryggingastofnunar mun hér eftir sem hingað til kappkosta að veita landsmönnum eins skjóta og góða þjónustu og framast er unnt.

Vigfús Magnússon,

aðstoðartryggingayfirlæknir.

Þakklæti

KONA hafði samband við Velvakanda og vildi koma á framfæri þakklæti til Hilmars Jacobsens, sem gerir við Kirby-ryksugur. Hann hafði gert við ryksuguna hennar og bað hún hann um að fá að greiða kostnaðinn eftir jólin. Hann sagði við hana að það væru að koma jól og hún mætti bara eiga viðgerðina. Vill hún senda honum sínar bestu þakkir fyrir.

Gulli í Kolaportinu

GULLI í Kolaportinu er að fara í frí um óákveðinn tíma. Þeir sem hafa fengið lánaða hluti hjá honum, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við hann í síma 5612187 á milli kl. 18-21 eða koma í Kolaportið á laugardag eða sunnudag.

Frumvarp til Alþingis

ÉG lýsi eindregnum stuðningi mínum við frumvarp, sem liggur fyrir um að banna peningaspilakassa á Íslandi. Ég mundi vilja sjá meiri stuðning frá SÁÁ og eins almenningi með þessari tillögu. Spilafíkn er dauðans alvara í orðsins fyllstu merkingu og hefur leitt til sjálfsvíga og mikillar óhamingju á mörgum heimilum. Hugsið ykkur, hvað auðvelt er að losna við þennan vágest, öfugt við til dæmis eiturlyf, en vonandi verða stjórnvöld með dómsmálaráðherra í broddi fylkingar, ekki í vafa um að þetta á að banna, því sem betur fer er það hægt.

Stuðningsmaður

frumvarpsins.