[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STEKKJARSTAUR er væntanlegur til byggða á sunnudag. Hans er beðið með mikilli eftirvæntingu ekki síst fyrir þær sakir að sveinki klæðist nýjum fötum að þessu sinni.

STEKKJARSTAUR er væntanlegur til byggða á sunnudag. Hans er beðið með mikilli eftirvæntingu ekki síst fyrir þær sakir að sveinki klæðist nýjum fötum að þessu sinni. Með spjaldofin axlabönd og rauða húfu, í grænum buxum, mórauðri peysu, og selskinnsskóm kemur hann arkandi beint af fjöllum.

Heiðurinn af nýjum búningi Stekkjarstaurs, og reyndar bræðra hans og foreldra einnig, á Bryndís Gunnarsdóttir, kennari og leikbrúðuhönnuður en hún vann samkeppni í fyrra sem efnt var til af Þjóðminjasafni Íslands um nýjan klæðnað á jólasveinana.

Prúðbúnir munu jólasveinarnir þrettán því mæta einn af öðrum í Ráðhús Reykjavíkur hvern dag fram að jólum frá og með nk. sunnudegi. Klukkan fjórtan hefst skemmtunin og börn á öllum aldri eru velkomin. Stekkjarstaur kemur fyrstur, eins og áður segir, en með í för verða Grýla og Leppalúði. Á mánudaginn mætir Giljagaur í sínu fínasta pússi og þannig áfram koll af kolli. Kertasníkir kemur síðastur eins og vanalega, á sjálfan aðfangadag, en bregður út af vananum og verður á ferðinni í ráðhúsinu kl. 11 en ekki klukkan 14 eins og hinir.

"Jólasveinarnir eru fjallmyndarlegir, það verður bara að segjast eins og er," segir Bryndís, stolt af körlunum sínum þrettán. Bryndís hannaði þrettán búninga, enginn er eins, ef undan eru skildar húfurnar sem allar eru eins í laginu og rauðar að lit. Margir hafa lagt hönd á plóginn, að sögn Bryndísar, til þess að gera jólasveinana eins vel úr garði og hægt er. Handprjónasamband Íslands sá um prjónaskapinn, prjónaði hnésokka, tvíþumla vettlinga og húfur en Bryndís sá um peysur á þá, vestin og buxurnar.

"Heiðurinn af aðalskrautinu á Philippe Ricart, sem er varaformaður Heimilisiðnararfélags Íslands, hann spjaldóf axlabönd og belti á alla jólasveinana. Deila má um hvort þetta sé ekki einum of fínt á karlana."

Búningarnir eru í sauðalitunum nema buxurnar sem unnar eru úr íslensku áklæði sem kallast túndra og eru jólasveinarnir ýmist í rauðum, bláum og grænum buxum.

Punkturinn yfir i-ið eru tölur úr ýmiss konar beinum, m.a. kindarhorni, hreindýrshorni, sauðarleggjum, hvalskíðum, lerki og tönnum úr gömlum útsel. "Það er með ólíkindum hvað hægt að gera margt skemmtilegt, meðal annars úr völum," segir Bryndís en við tölusmíðina fékk hún til liðs við sig handverksfólk úr ýmsum áttum. "Það er gaman að kynnast svona góðu handverksfólki, allir vönduðu sig svo mikið."

Íslandssími styrkti búningahönnunina, að sögn Bryndísar, og Ólafur Pétursson, sem teiknaði nýju jólafrímerkin, studdist við búningana hennar að vissu leyti.

Búningarnir á Netinu

Frá því í sumar hefur Bryndís verið önnum kafin við ýmiss konar saumaskap og stúss tengt jólasveinabúningunum. "Ég hófst handa í Skinnaiðnaðinum á Akureyri við að vinna gæruvestin og leigði síðan vinnustofu til að þæfa flókavesti á þá. Ég varð mér úti um óþvegna ull og var því ekki í húsum hæf meðan á þessu stóð."

Bryndís var einnig svo hugulsöm að skilja ekki Grýlu og Leppalúða útundan og því skarta hjónakornin nýjum flíkum þessi jólin. "Þeim verður í það minnsta ekki kalt í þeim," segir Bryndís. " Leppalúði mun tipla um á sauðskinnsskóm og Grýla er bæði með hófa og hala."

Vonast er til að Grýla og Leppalúði haldi sig á mottunni í Ráðhúsinu á sunnudaginn og fari ekki í hár saman.

Að lokum segir Bryndís að hver og einn geti gert búninga í svipuðum dúr og hún. Ef sköpunargleðin fer af stað er hægt að nálgast upplýsingar um búningana hennar á vefsíðu sem hún hannaði sjálf en slóðin er http://rvik.ismennt.is ~ bg/

hm