Haukar sigruðu Snæfell frá Stykkishólmi næsta örugglega, 75:60, í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði í gærkvöldi. Sigurinn var ekki beinlínis sannfærandi, a.m.k. miðað við muninn á fjölda stiganna, sem liðunum auðnaðist að skora.
Haukar sigruðu Snæfell frá Stykkishólmi næsta örugglega, 75:60, í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði í gærkvöldi. Sigurinn var ekki beinlínis sannfærandi, a.m.k. miðað við muninn á fjölda stiganna, sem liðunum auðnaðist að skora.

Haukar voru sem sagt ósannfærandi í leik sínum, en þeir sýndu viðunandi leik á köflum. Það voru einmitt þessir kaflar, sem voru Snæfellingum um megn - liðinu sem reiddi sig á einn mann, Kim Lewis.

Haukar voru mun ákveðnari í upphafi leiks og gerðu tíu fyrstu stigin. Kim Lewis gerði fyrstu stig Snæfells úr hraðaupphlaupi er sex mínútur voru liðnar. Bæði lið léku vörn maður gegn manni.

Er gestirnir höfðu loks komið boltanum í gegnum körfuhringinn, tókst þeim að minnka muninn í þrjú stig, 12:9. En Haukar virtust ávallt geta bætt lítið eitt við sig er leikmenn Snæfells gerðu sig líklega til að snúa leiknum sér í hag, þótt þeir hafi gert það í veikri von því lengur sem leið á leikinn. Haukar juku strax muninn í sjö stig, en aftur minnkuðu gestirnir muninn, 23:21. Aftur sigu Hafnfirðingar framúr. Þannig mátti merkja lítilfjörleg kaflaskipti reglulega í leiknum.

Með hverjum spretti Haukanna jókst munurinn. Er heimamenn gerðu tíu stig gegn þremur stigum Snæfells í upphafi síðari hálfleiks, leið langur tími þar til gestirnir fundu þrótt til að gera lokatilraun sína við að komast upp að hlið hinna rauðklæddu.

Í þeirri viðleitni sinni færðu þeir sér meðvitundarskort andstæðinga sinna í nyt. Kim Lewis var sem fyrr maðurinn á bak við þennan kipp Snæfells. Gestirnir úr Stykkishólmi höfðu þó eigi burði til að ganga enn lengra, enda tíminn helst til naumur.

Chris Dade var besti leikmaður Hauka, en fór af velli með fimm villur og hvíldist auk þess nokkra stund vegna eymsla í ökkla. Snæfell, sem lék án Bárðar Eyþórssonar, tefldi fram öðrum erlendum leikmanni, David Colbas að nafni, en hann olli vonbrigðum.

Edwin Rögnvaldsson skrifar