[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinsmíði er aldagamalt og virðulegt handverk sem enn er í fullu gildi. Hildur Einarsdóttir fylgdst með vinnu steinsmiðsins Þórs Sigmundssonar sem heldur fast við gamlar hefðir.

Í HAUST tóku vegfarendur eftir ungum manni sem bograði yfir Dómkirkjutröppunum með hamar og meitil í hönd. Honum hafði verið falið það verkefni að jafna þrep kirkjunnar sem höfðu eyðst undan misjafnlega þungum sporum kirkjugesta í tímans rás. Athugulir kirkjugestir hafa líka tekið eftir að komið er fíngert mynstur í tröppurnar sem helgast af verklagi steinsmiðsins, Þórs Sigmundssonar. Vinnuaðferðir hans byggjast á aldagömlum hefðum við endurhögg þrepa og miðast að því að jafna yfirborð þrepanna og gera þau þannig að fólk renni síður á þeim. Iðn sína lærði Þór í Danmörku í handverksskólanum í Haslev en bærinn er rétt sunnan við Kaupmannahöfn. Handverksskólinn í Haslev er að sögn Þórs eini skólinn á Norðurlöndum sem kennir steinsmíði eins og hún gerðist hér fyrr á öldum þegar hún byggðist eingöngu á handverkfærum. Í þessum skóla taka menn sér því afar sjaldan loftbor í hönd. Þór hóf námið árið 1996 og er við að ljúka því.

Áður en hann hóf steinsmíðanámið hafði hann lært skrúðgarðyrkjufræði í Garðyrkjuskóla ríkisins. Hann vann sem skrúðgarðyrkjufræðingur hjá skrúðgarðameisturunum Birni og Guðna en þeir hafa sérhæft sig í grófri grjótvinnu og hafa unnið meðal annars við Ráðhús Reykjavíkur og Ingólfstorg. "Í gegnum þessi störf fékk ég áhuga á steinsmíðinni," segir Þór.

Námið að mestu verklegt

Hann segir námið í handverksskólanum vera mjög áhugavert. "Fyrstu tuttugu vikurnar í skólanum eru eins konar reynslutími en að honum loknum tökum við próf. Þá þurfum við að vera komin á samning hjá meistara í iðninni. Það eru alltaf einhverjir sem falla á prófinu þannig að það eru aðeins þeir sem sýna árangur sem halda áfram í skólanum.

Námið er að mestu verklegt. Mestur hluti þess fer í að kynnast og vinna úr hinum ýmsu steintegundum. Við lærum að nálgast þær á mismunandi hátt eftir eiginleikum þeirra og okkur er kennt að mismunandi verkfæri hæfa hverri þeirra. Verkfæri í marmara og sandstein eru til dæmis fremur fíngerð vegna þess að steinninn býður upp á nákvæmari og fínlegri vinnu.

Við lærum einnig stærðfræði og teikningu í skólanum en þessar greinar hafði ég þegar lært í Fjölbrautaskólanum á Selfossi þar sem ég átti heima og í Garðyrkjuskólanum svo ég hef ekki þurft að eyða miklum tíma í þær.

Þór lýsir náminu og þeim atvinnumöguleikum sem það býður upp á. Hann segir að hluti þeirra sem útskrifast úr steinsmíðinni vinni með listamönnum að höggmyndagerð. "Við lærum því að höggva út stein eftir afsteypu eða teikningu. Þeir steinsmiðir sem eru mjög listrænir og skapandi vinna sína eigin skúlptúra," segir hann.

"Í Danmörku vinna margir steinsmiðir við viðhald gamalla steinhúsa. Í höllum eins og Amalienborg og Kronenborg vinna 6-7 steinsmiðir í fullu starfi við að endurnýja steina í höllunum og við að lagfæra alls konar veggjaskraut og styttur úr steini.

Steinsmiðir vinna einnig að nýsmíði en farið er að nota meira náttúrulegan stein í byggingu nýrra húsa og kringum þau. Ég vann við uppsetningu á stuðlabergsklæðningu fyrir utan nýbyggingu Kringlunnar sem kemur mjög vel út.

Grjótið hentugt í götulagnir þar sem það á við

Þór segir kosti náttúrlegs steins marga. Steinninn sé ekki aðeins fallegur heldur hafi hann ýmsa kosti eins og að vera mjög sterkt efni. "Mér finnst misráðið að nota náttúrlegt grjót ekki meira til dæmis í götulagnir þar sem það á við. Í stórborgum erlendis er víða að finna steinlagnir sem gerðar hafa verið úr granítkubbum sem hafa staðist mjög vel ágang aldanna. Yfir þær hafa ef til vill farið skriðdrekar eða önnur stórvirk tæki en það sést varla á steinalögninni. Þar eð efnið er gróft þá tekur maður heldur ekki eins eftir því þótt kubbarnir hreyfist aðeins úr stað.

Náttúrulegt grjót og vinnan við það er 3-4 sinnum dýrara en annað efni sem notað er í götulagnir en endingin er margföld."

Lagfærir legsteina í kirkjugarðinum við Suðurgötu

Legsteinagerð er að sögn Þórs stór þáttur í náminu. Þá fá nemendur sagaðar plötur í hendurnar en þurfa að móta þær að eigin geðþótta. Einnig læra þeir leturgerð í stein.

Um þessar mundir er Þór að hefja vinnu við að hreinsa og lagfæra legsteina úr kirkjugarðinum við Suðurgötu. Þetta er liður í verkefni á vegum skipulagsnefndar kirkjugarðanna sem miðar að því að viðhalda og lagfæra minnismerki í kirkjugarðinum. Garðurinn þykir sérstakur ekki aðeins á íslenskan mælikvarða því í honum eru dæmi um fallegar steinsmíðar og mikið er þar af pottjárnsminnismerkjum. "Þetta eru friðaðar minjar og er unnið að lagfæringunum á þeim í samráði við Þjóðminjasafnið og handhafa þeirra leiða sem þar eru," segir Þór. "Mín vinna felst í að lagfæra og hreinsa einstaka steina og skipta um hluta í steininum ef hann er brotinn og skerpa leturgerðina."

Leturgerðin áhugaverð

Þór hefur fengist við margvísleg fleiri verkefni. Þegar verið var að gera upp Dómkirkjuna vann hann fyrir Björn og Guðna sem voru verktakar við endurgerð kirkjunnar. Hann sérsmíðaði steinboga yfir 16 glugga í kirkjunni og yfir hurðina á skrúðhúsinu auk þess að endurnýja vegghleðslu í suður- og austurhluta kirkjunnar og í skrúðhúsinu.

Hvað ætli honum þyki áhugaverðast í faginu?

"Mér finnst skemmtilegt að fást við leturgerð. Vinir mínir úr Garðyrkjuskólanum eiga erfitt með að trúa þessu því ég var svo skjálfhentur þegar ég var í skólanum. En það er eins og ég slappi svo vel af þegar ég er kominn með hamarinn og meitilinn í hendurnar. Mér finnst líka gaman að vinna eftir teikningu eins og skúlptúra. Svo verð ég alltaf öðru hvoru að komast í stóran grjóthnullung og berja á honum."