Á FUNDI stjórnar Alþýðusambands Austurlands, sem haldinn var á Eskifirði þriðjudaginn 30.

Á FUNDI stjórnar Alþýðusambands Austurlands, sem haldinn var á Eskifirði þriðjudaginn 30. nóvember, samþykkti stjórn ASA eftirfarandi stuðningsyfirlýsingu við Fljótsdalsvirkjun:

"Stjórn Alþýðusambands Austurlands lýsir yfir fullum stuðningi við þingsályktun um að framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun verði haldið áfram. Stjórnin leggur áherslu á að tilkoma virkjunar og álvers á Austurlandi mun hafa mjög jákvæð áhrif á atvinnulífið í fjórðungnum og gegna mikilvægu hlutverki í að snúa við hinni óhagstæðu byggðaþróun sem verið hefur.

Álver á Austurlandi mun auka fjölbreytni í atvinnulífi fjórðungsins og vega að verulegu leyti upp á móti þeim störfum sem tapast hafa í frumvinnslugreinunum. Þá mun tilkoma álvers og starfsfólk þess skjóta styrkari stoðum undir þjónustugreinar í landshlutanum.

Færa má sterk rök fyrir því að Fljótsdalsvirkjun og álver við Reyðarfjörð sé veigamesta byggðaaðgerð sem unnt er að ráðast í um þessar mundir. Þá er einnig ljóst að þessar framkvæmdir eru jákvæðar fyrir íslenskt efnahagslíf.

Alþýðusamband Austurlands vill vekja athygli á því að störf í nútímaálverum eru fjölþætt, eftirsótt og vel launuð. Þá er vinnutími hóflegur og vinnufyrirkomulag stöðugt. Allir þessir þættir vega þungt í afstöðu stjórnar Alþýðusambands Austurlands til þessa máls." Alþýðusamband Austurlands er samband verkalýðsfélaga á svæðinu frá Bakkafirði til Hornafjarðar, meðlimir þess eru u.þ.b. 3000, landverkafólk, sjómenn, iðnaðarmenn og verslunarmenn.