Halla Jónsdóttir
Halla Jónsdóttir
Stöldrum við á þessari aðventu og hugum að framtíðinni, segir Halla Jónsdóttir.

AÐVENTAN er gengin í garð. Tími tilhlökkunar og undirbúnings.

En aðventan er fasta, jólafasta. Fasta merkir að við prófum okkur sjálf, íhugum hvað gefur lífi okkar gildi. Þar sem við lítum upp úr amstri hversdagsins, beinum sjónum okkar að því sem er þýðingarmikið, til að hindra að hið marga smáa byrgi okkur sýn á því mikilvæga.

Fasta merkir að við temjum okkur hófsemi til að geta gefið öðrum.

Um víða veröld þjást börn og fullorðnir vegna náttúruhamfara, sorgar eða voðaverka illra afla. Á þessari aðventu líða margir skort, hafa hvorki fæði né klæði og eru heimilislausir. Lítið þarf oft til að breyta aðstæðum fólks. Á einni nóttu missir fólk heimili sitt, það verða uppskerubrestir, flóð eða jarðskjálftar.

Daglega berast okkur slíkar fregnir af fólki í nauð. Fólk nær og fjær mætir erfiðleikum og mannlegum hremmingum sem veldur því að fólk missir fótanna.

Það er kall til okkar, og sérstaklega á aðventu nú sem fyrr, að rétta hjálparhönd. Að vera vinur, vera náungi. Minnug orða Krists um að allt það sem við gerum okkar minnsta bróður eða systur höfum við gert honum.

Nú sem fyrr kallar Hjálparstarf kirkjunnar til landsmanna og minnir á þá sem líða. Hjálparstarf kirkjunnar sem um árabil hefur veitt innanlandsaðstoð, neyðaraðstoð til landsvæða sem mæta hörmungum og aðstoð til fólks í þriðja heiminum.

Að þessu sinni er yfirskrift söfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar Gefum okkur öllum betri framtíð. Og spurt er hvort við séum aflögufær.

Öll getum við látið eitthvað af hendi rakna.

Rithöfundurinn T.S. Elliot talar um "hina innantómu manneskju" sem ógnvænlega hótun í samtíma okkar. Manneskjan sem getur eignast allt sem hægt er að kaupa, en finnur ekki til með öðrum og getur hvorki gefið af kærleika né tekið á móti honum. Þarna er ekki spurning um vitsmuni heldur hjartalag.

Við sem neytum sjöfalt á við Afríkubúa, erum við ekki orðnir fangar eigin neyslu og doða? Stöldrum við á þessari aðventu og hugum að framtíðinni. Framtíð okkar allra. Hér á landi og um víða veröld. Leggjum því góða lið. Leggjum kærleikanum lið.

Hafið söfnunarbauk Hjálparstarfs kirkjunnar gjarnan hjá ykkur í eldhúsinu á aðventunni. Hvetjið börnin til að gefa einnig af sínum peningum, allir geta lagt eitthvað af mörkum. Ölum börnin upp í kærleika. Það er það besta sem við getum gefið þeim, og það sem þeim er svo nauðsynlegt að bera með sér inn í sína framtíð.

Heimur hinnar innantómu manneskju er ógnvænlegur. Þar sem kærleikur, samhygð og alúðin víkur fyrir neyslu og eigin hagsmunum.

Guð gefi okkur að vera bænheyrsla þeim sem þjást og líða, sakna og syrgja.

Að vera styrk hönd, hugur sem ann og hjarta sem líður.

Mætti þessi aðventa færa okkur frið í huga og hjarta, og verða til þess að við fáum greint það þýðingarmikla frá hjóminu.

Gefðu þér og þínum betri framtíð. Með því að leggjast á sveif með kærleikanum Ertu aflögufær?

Höfundur er settur fræðslustjóri kirkjunnar.