Karl Helgason
Karl Helgason
eftir Karl Helgason. Kápumynd gerð af Halldóri Baldurssyni. Æskan ehf. 1999. Prentsmiðjan Oddi hf. Samtals 148 bls.

LEIÐIN að sannri vináttu getur verið þyrnum stráð eins og Lilja í sögu Karls Helgasonar, Köflóttum himni, fær að reyna. Lilja er nýbúin að slíta sig lausa frá hinni óhóflega stjórnsömu Mæju þegar hún kynnist Hrefnu og er ekki ýkja spennt fyrir nánari kynnum til að byrja með. Hrefna er hins vegar fljót að heilla Jón Geir, litla bróður Lilju, og hana sjálfa í kjölfarið enda er hún bæði opin og skemmtileg stelpa. Vinkonurnar bralla ýmislegt saman á einu sumri. Ekki síst í tengslum við spenninginn gagnvart fyrstu nánu kynnunum við hitt kynið. Spennan magnast og hámarki nær atburðarásin þegar Lilja verður að leggja strákamálin á hilluna til að kljást við bíræfinn glæpamann í sumarferð til Portúgals. Eins og í öllum góðum vináttusamböndum getur snurða hlaupið á þráðinn og eins gott að vera við öllu búinn undir lokin.

Köflóttur himinn er ákaflega vel skrifuð unglingasaga, stíllinn er yfirvegaður og samtölin lipur. Karl fer létt með að kynna lesendur fyrir trúverðugum persónum og flækja í ótrúlega spennandi og raunsæ ævintýri bæði hérlendis og erlendis. Lýsingarnar eru nákvæmar og oft eins og verið sé að fylgja persónunum eftir í spennandi bíómynd. Kostur bókarinnar er að alltaf er hægt að fletta til baka, rifja upp og gaumgæfa eina senu í einu. Eins og í öllum góðum sögum er spennan heldur ekki aðeins á yfirborðinu. Undir niðri kraumar þyngri tónn og brýst upp á yfirborðið þegar Lilja heldur að hún hafi orðið völd að dauða bróður síns. Frábært stílbragð veldur því að lesandanum finnst hann fá vatnsgusu framan í andlitið. Hann er löngu orðinn of nátengdur persónunum til að láta sér á sama standa um örlög þeirra.

Eins og áður segir eru persónurnar ákaflega vel úr garði gerðar og er þar bæði átt við aðalpersónur og aukapersónur á borð við hina spaugilegu Friðbjörgu. Hins vegar fer því fjarri að allar persónurnar séu fullkomnar í sínu innsta eðli eins og breyskleiki mömmu Hrefnu ber vott um. Höfundurinn forðast heldur ekki að nefna jafn viðkvæman vanda og þunglyndi. Lýsingin á því er falleg og jafn sannfærandi og annað í atburðarás sögunnar.

Ennfremur er virðingarvert að kynhlutverk skuli ekki vera jafn stöðluð í sögunni og oft vill brenna við í unglingasögum. Mamman lætur sig nefnilega ekki muna um að taka til hendinni við smíðar á meðanpabbinn gætir barnanna í kringum sumarbústaðinn. Ekki verður svo skilið við vinkonurnar án þess að minnast á strákana því undir lokin má ljóst vera að útlitið segir ekki allt - stórt nef - getur t.a.m. verið alveg hreint ótrúlega sjarmerandi!

Að ofansögðu er ljóst að auðvelt er að mæla með sögunni Köflóttum himni. Ekki síst fyrir stelpur á aldur við söguhetjurnar, þ.e. um tólf ára aldurinn. Vinkonurnar eru ekki aðeins sniðugar og skemmtilegar stelpur heldur hinar bestu fyrirmyndir í öllum góðum siðum.

Kápumynd Halldórs Baldurssonar er falleg og allur frágangur til stakrar fyrirmyndar.

Anna G. Ólafsdóttir