Margot Kiis söng með Kaldo Kiis básúnu, Jan Alavera píanó, Stefáni Ingólfssyni rafbassa og Benedikt Brynleifssyni trommur. Föstudagskvöldið 3. desember 1999.

ERLENDIR hljóðfæraleikarar hafa lyft tónlistarlífinu í mörgu byggðarlaginu á Íslandi í nýjar hæðir. Þar stjórna þeir kórum, leika í kirkjunni og kenna. Um helgina mátti heyra þrjá slíka frá Eistlandi á fullveldisdjasshátíð Múlans: söngkonuna Margot Kiis, eiginmann hennar, básúnuleikarann Maldo Kiss, en bæði kenna þau við Stóru-Tjarnarskóla svo og píanistann Jan Alvera, sem raunar er fiðluleikari fyrst og fremst og kennir við Laugarskóla.

Ólíkt flestum öðrum erlendum hljóðfæraleikurum er hér starfa fást þau við að leika djassmúsík jafnframt klassíkinni og er það Margot sem hefur forustuna í þeim efnum. Hún hefur ágæta rödd og tilfinningu fyrir sveiflu, en skortir nokkuð uppá reynslu í fraseringum og djassspuna. Röddin er ekki mikil og einstaka sinnum var hún tæp á tóninum, aftur á móti var sönggleðin mikil og útgeislunin. Eiginmaður hennar, Kaldo, er ekki djassbásúnuleikari, en blés ágætlega undir - sólóarnir voru aftur á móti beint upp úr bókinni. Jan Alavera er aftur á móti lipur djasspíanisti í svíngstílnum, með afbrigðum nettur og heldur sig á slóðum Teddy Wilsons.

Efnisskráin samanstóð af þekktum standördum, sömbum og blúsum. Nefna má It's only a paper moon, No more blues, When Sunny gets blue, Stardust, Lover man, sem söngkonan hafði ekki á valdi sínu, og svo best heppnaða lag tónleikanna: Don't get around much anymore eftir Duke Ellington.

Benedikt Brynjólfsson er ungur trommuleikari frá Akureyri og lofar góðu og gaman var að heyra í Stefáni Ingólfssyni að nýju. Hann hefur verið búsettur á Akureyri um skeið og man ég varla eftir að hafa heyrt hann leika síðan með Súldinni í gamla daga. Stefán er kraftmikill bassaleikari og keyrði sveitina áfram.

Fullveldisdjasshátíð Múlans lauk svo á sunnudagskvöld þar sem tríó Ástvalds Traustasonar lék með Ragnari Bjarnasyni m.a. lögin af nýja disknum hans Ragga: Við bjóðum góða nótt. Yfirskrift tónleikanna var: Múlinn kynnir stoltur! Jazzsöngvarann Ragga B! Því miður komst undirritaður ekki á tónleikana en hlustaði þess í stað á nýja diskinn. Það var kominn tími á að Raggi hljóðritaði djassaða skífu. Þær eru alltof fáar frá hans hendi. All of me á 78 snúninga plötu með KK, nokkur lög með Stórsveit Reykjavíkur og svo Just one of those things á KK geisladiskunum. Það lag er líka á nýja disknum og tekst með ágætum.

Vernharður Linnet