Höfundur: Pétur Eggerz. Tónlist: Vilhjálmur Guðjónsson. Leikstjóri og leikmyndarhönnuður: Bjarni Ingvarsson. Aðstoð á æfingum: Aino Freyja Järvelä. Búningar: Katrín Þorvaldsdóttir. Leikarar: Bjarni Ingvarsson (rödd af segulbandi), Hrefna Hallgrímsdóttir og Pétur Eggerz. Föstudagur 3. desember.

JÓLIN eru eins og lagarfljótsormurinn að því leyti að það virðist ekki nokkur leið til að hemja vöxt þeirra og viðgang. Núorðið eru þau hátíð sem nær frá 1. desember - jafnvel fyrr því sumir kaupmenn freistist til að fara að auglýsa og hengja upp skraut í nóvember - fram á þrettándann. Þetta er orðin allsherjar neysluhátíð þar sem landsmenn stofna sér í stórskuldir til að gleðja sjálfa sig og aðra.

Leikritið Jónas týnir jólunum fjallar um mann sem forðast samneyti við aðra menn en á þess í stað sálufélag við sjálfan sig og tölvuna í felum á friðarhátíðinni. Jólaengill nokkur er sendur út af örkinni til að kippa þessu í liðinn, því - ógn og skelfing - enginn má gleyma jólunum. Kosturinn við þetta jólaleikrit er að sögusvið og persónur eru nýstárlegar; ókosturinn er sá að enginn raunverulegur greinarmunur er gerður á raunverulegum mannlegum samskiptum og táknrænum.

Þrennt er notað sem tákn jólanna: jólaskreytingar, jólakort og jólagjafir. Þöll jólaengill bregður sér í ýmis gervi til að koma þessum táknum til skila. Pósturinn kemur með jólakveðjurnar; glysgjarna frænkan frá Bandaríkjunum með skrautið; og jólasveinninn með gjafirnar. Vandinn er sá að öll þessi "mannlegu" samskipti eru í raun ekki við fólk sem Jónas þekkir heldur tilbúin af jólaenglinum. Það skiptir ekki máli hvort Jónas trúir á að þau séu raunveruleg eða ekki; fölsuð jólakort og -pakkar frá fólki sem er ekki til geta varla talist gott dæmi um mannleg samskipti á jólunum. Er það ekki hámark firringarinnar að koma fram með þau skilaboð að falsaðar jólakveðjur séu betri en engar; að jólapakkar frá uppdiktuðu skyldfólki og vinum séu betri en engir pakkar? Þó að reynt sé að læða inn boðskap um frið og kærleik öllum til handa meðfram ytri táknum er aðaláherslan lögð á að neyða aumingja Jónas til að taka þátt í neyslukapphlaupinu.

Auðvitað tekur enginn eftir þessum annmarka á boðskap leikritsins og það rennur ljúft og áreynslulaust inn í vitund barnanna. Jónas er ágætlega leikinn af Pétri Eggerz og Hrefnu Hallgrímsdóttur tekst sérstaklega vel upp sem jólaengillinn Himinþöll. Búningar Katrínar Þorvaldsdóttur eru firna fjölskrúðugir, sem gerir Hrefnu auðveldara fyrir að skapa skemmtilegar týpur í kringum þá. Tónlist Vilhjálms Guðjónssonar og ýmsar einfaldar tæknibrellur eru vel þegin tilbreyting. Það er líka hæfilegt jafnræði á með útsendaranum frá Jólastjörnunni sem styðst við þróaða samskiptatækni og Jónasi sem berst við tölvuna. Hver og einn áhorfandi ætti að geta komist að þeirri niðurstöðu að það er betra að halda tölvunotkuninni innan skynsamlegra marka og stunda mannleg samskipti - þótt ekki sé um aðra að velja en jólaengla frá fjarlægum stjörnum.

Sveinn Haraldsson