Verðlaunagarðhús arkitektanna Hjördísar Sigurgísladóttur og Dennis Jóhannessonar verður reist   á Kjarvalsstöðum.
Verðlaunagarðhús arkitektanna Hjördísar Sigurgísladóttur og Dennis Jóhannessonar verður reist á Kjarvalsstöðum.
GARÐHÚSABÆR (Kolonihaven) - alþjóðlegt verkefni í byggingarlist - er sameiginlegt framlag Arkitektafélags Íslands og Listasafns Reykjavíkur til dagskrár verkefnisins Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000 sem jafnframt er liður í dagskrá Listahátíðar í...

GARÐHÚSABÆR (Kolonihaven) - alþjóðlegt verkefni í byggingarlist - er sameiginlegt framlag Arkitektafélags Íslands og Listasafns Reykjavíkur til dagskrár verkefnisins Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000 sem jafnframt er liður í dagskrá Listahátíðar í Reykjavík árið 2000. Kjarni þess er sýning á Kjarvalsstöðum á teikningum og líkönum eftir heimsþekkta arkitekta sem opnuð verður í maí árið 2000.

Í tengslum við sýninguna efndi Arkitektafélag Íslands til samkeppni meðal félagsmanna og liggja nú úrslit fyrir.

Vinningshafar eru arkitektarnir Hjördís og Dennis, Hjördís Sigurgísladóttir arkitekt FAÍ og Dennis Jóhannesson arkitekt FAÍ. Samkeppnin var send til Danmerkur til dóms. Í dómnefnd sátu Kirsten Kiser, sýningarstjóri Garðhúsabæjarins og formaður dómnefndar, Nicolai Ouroussoff, arkitektúrgagnrýnandi Los Angeles Times og Rebecka Tarschys, arkitektúrgagnrýnandi Dagens Nyheter, Stokkhólmi.

Tillaga þeirra Hjördísar og Dennis verður reist í fullri stærð á Kjarvalsstöðum, samtímis og sýningin verður opnuð þar á teikningum og líkönum eftir heimsþekkta arkitekta sem áður hafa teiknað garðhús. Í hópi sýnenda eru m.a. arkitektarnir Mario Botta, Richard Maier, Hennig Larsen, Arata Isozaki og Aldo Rossi.

Forsaga verkefnisins um Garðhúsabæinn er í stuttu máli sú, að hugmyndin um garðlendur kom fyrst fram í lok 19. aldar sem liður í umbótum á aðbúnaði verkafólks. Árið 1994 voru dönsku arkitektarnir Kirsten Kiser og Christian Lund frumkvöðlar að því að efna til sýningar þar sem heimsþekktum arkitektum var boðið að hanna garðhús í anda danskrar hefðar. Tveimur árum síðar, þegar Kaupmannahöfn var menningarhöfuðborg Evrópu, var haldin sýning í nágrenni borgarinnar á teikningum og líkönum arkitektanna. Einnig var aðstandendum sýningarinnar úthlutað svæði í Vallensbæk, þar sem nú er útigarður tileinkaður byggingarlist, Garðhúsabær, með skálum arkitektanna í fullri stærð. Á síðastliðnu ári var haldin sýning í Stokkhólmi sem byggðist á sömu hugmynd og bættust þá við þrír heimsþekktir arkitektar með sitt framlag til Garðhúsabæjarins í Vallenbæk að sýningu lokinni. Eftir að sýningunni á Kjarvalsstöðum næstkomandi vor lýkur er stefnt að því að garðhús þeirra Hjördísar og Dennis verði flutt til Danmerkur og endurreist í garðinum í Vallensbæk.