MARKAÐS- og atvinnuráð Reykjanesbæjar hefur krafist þess að samgönguráðuneytið beiti sér fyrir að nafnbreyting Flugleiða á "Keflavík International Airport" í "Reykjavík International Airport" verði afturkölluð.

MARKAÐS- og atvinnuráð Reykjanesbæjar hefur krafist þess að samgönguráðuneytið beiti sér fyrir að nafnbreyting Flugleiða á "Keflavík International Airport" í "Reykjavík International Airport" verði afturkölluð.

Krefst ráðið ennfremur að Flugleiðum verði gerð grein fyrir hvert nafn flugvallarins er og Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar verði skýrt frá niðurstöðunni.

Markaðs- og atvinnráð Reykjanesbæjar hefur lýst furðu sinni á því að svo virðist sem Flugleiðir hafi breytt ensku heiti Keflavíkurflugvallar svo sem áður var lýst samanber kort á heimasíðu félagsins.

Einar Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá Flugleiðum segir að hjá félaginu sé ávallt unnið með Keflavíkurheitið í ýmsum flugrekstrargögnum en hins vegar notaði félagið alla jafna nafn Reykjavíkur eins og nöfn annarra borga sem félagið þjónar. Á heimasíðunni hafi að þessu sinni verið tekið sérstaklega fram að Reykjavík væri þjónað af alþjóðaflugvelli þar sem ímynd Íslands væri tiltölulega veik á alþjóðamarkaði. "Sennilega væri þó einfaldara og kæmi í veg fyrir misskilning, að fella út alla tilvísun í flugvöllinn en halda borgarheitinu inni," segir Einar.

"Í þessu tilliti má benda á að við nefnum aldrei heiti flugvalla á áfangastöðum okkar erlendis heldur eingöngu þær endastöðvar sem þjónað er í hverju landi af viðkomandi flugvöllum. Við höfum hins vegar fullan skilning á því að Keflvíkingar séu stoltir fyrir hönd síns byggðarlags og þáttar þess í uppbyggingu alþjóðaflugsins og munum því hlusta á skoðun þeirra og annarra," sagði Einar.