Hross standa við heyrúllu í Hvalfirði í vetrarbyl.
Hross standa við heyrúllu í Hvalfirði í vetrarbyl.
Hestaflutningamenn hafa átt annríkt að undanförnu enda margir að reyna að koma hestunum sínum inn eftir að vetur gekk í garð með fullum þunga um allt land.

Hestaflutningamenn hafa átt annríkt að undanförnu enda margir að reyna að koma hestunum sínum inn eftir að vetur gekk í garð með fullum þunga um allt land. Óhætt er að fullyrða að sjaldgæft er að jarðbönn séu á þessum árstíma á Suður- og Suðvesturlandi svo lengi í senn eins og nú.

Flestir eru farnir að gefa hrossum út og hætt er við að margir kaupsstaðabúar sem ætluðu ekki að taka hrossin inn fyrr en eftir miðjan desember þurfi nú að gera ráðstafanir og huga að því að hrossunum sé gefið ef þau eru ekki tekin strax inn

Ormalyf, nægilegt fóður og gott skjól

Það er ótrúlegt að fylgjast með hvað íslensku hrossin eru yfir höfuð dugleg að bjarga sér þótt auðvitað sé það svolítið einstaklingsbundið. Þau geta þrifist vel ef þau ná að krafsa þar sem land er loðið af sinu. Margir hafa eflaust séð það síðustu daga hversu nauðsynlegt það er að hrossin kunni og séu dugleg að bjarga sér þegar á reynir. Hrossum, sem vel hefur verið búið að með góðri beit síðsumars og í haust og sem eru heilbrigð og feit, virðist ekki muna mikið um að hafa ekki fengið neina gjöf í nokkra daga.

En Björn Steinbjörnsson dýralæknir sagði í samtali við Morgunblaðið að þótt hross geti lifað af í nokkra daga án gjafar sé það skylda þeirra sem hafa umsjón með hrossum að gefa þeim ef jarðbönn eru. Í raun og veru séu það þrjú atriði sem þarf að uppfylla.

Í fyrsta lagi þarf að gefa öllum hrossum ormalyf á haustin til þess að þau séu í stakk búin að takast á við veturinn. Ef fólk hefur ekki gefið ormalyf þarf að gera það strax. Sérstaklega er folöldum og tryppum alveg upp að fjögurra vetra aldri hætt við vanþrifum sé það ekki gert. Ef hross eru ormaveik nýtist fóðrið mjög illa auk þess sem sár geta myndast í meltingarveginn og skapað mikla vanlíðan hjá sjúklingnum. Hrossin leggja smám saman af og verða oft grindhoruð á vorin, jafnvel þótt þau hafi haft aðgang að nægu fóðri.

Í öðru lagi þurfa hrossin nægilegt fóður hvort sem um er að ræða gjöf eða beit, en nú til dags heyrir til undantekninga ef útigangshrossum er ekki gefið.

Í þriðja lagi þurfa útigangshross gott skjól fyrir veðri og vindum. Þar sem ekki eru náttúruleg skjól er skylt samkvæmt reglugerð um aðbúnað hrossa að koma upp skjóli í haga útigangshrossa. Í þeirri reglugerð er einnig ákvæði um að hægt eigi að vera að hýsa öll hross í vondum veðrum. Reyndar þekkja margir hversu erfitt það getur verið að koma útigangshrossum inn í hús í vondum veðrum því þau kjósa frekar að standa úti í góðu skjóli. Þá er einnig ákvæði um að hross þurfi að hafa aðgang að hreinu vatni. Þótt mörg hross þurfi að láta sér nægja að éta snjó telur Björn að það sé ekki boðlegt

Skilar sér að búa vel að ungviðinu

Þótt hross séu vanaföst ættu þeir sem fóðra útigang líka að athuga að gefa ekki rúllurnar alltaf á sama stað. Ef það er gert safnast mikill skítur á gjafastaðinn og heyið veðst niður í hann og mengast. Rúllugjöfin er kjörið tækifæri til að græða upp gróðursnauða bletti t.d. mela með því að gefa rúllur þar á veturna þegar frost er og melarnir harðir. Úr heyinu koma fræ og skíturinn úr hrossunum er góður áburður.

Þar sem hross eru mörg í hóp er gott að dreifa sem mest úr rúllunum, t.d. með því að rúlla þeim út með dráttarvélinni. Þetta er þó ekki ráðlegt ef hvasst er því mikið hey fer þá forgörðum. Ef aðeins ein rúlla er sett út fyrir fjölda hrossa er alltaf hætta á að tryppi verði útundan, en þau þurfa að hafa stöðugan aðgang að fóðri. Munar miklu ef gefnar eru tvær rúllur í einu eða fleiri eftir fjölda hrossanna. Sumir vilja aðskilja hrossin eftir aldri, en aldrei skal vanmeta gildi þess að tryppin alist upp með fullorðnum hrossum og læri að virða þau og staðsetja sjálf sig í virðingarstiganum. Hins vegar er mjög mikilvægt að fylgjast vel með hvernig þau þrífast því þeim er mun hættara við að verða fyrir skakkaföllum en fullorðnum hrossum. Best er að gera það með því hreinlega að taka á þeim með berum höndum til að kanna holdafarið. Ef byrjað er á þessu strax þegar þau eru ung er þetta upplögð aðferð til að spekja þau og venjast manninum. Ef húðin er laus frá rifbeinunum er hrossið í góðum holdum en ef það byrjar að festast, eins og kallað er, þ.e. þegar húðin er ekki laus, er það í aflögn.

Gömul og góð regla er sú að búa vel að tryppunum fyrstu árin, gefa þeim ormalyf og passa að þau lendi aldrei í aflögn, enda ræðst styrkur og þol hrossanna mikið til af því hvernig til tekst í upphafi. Björn telur best að taka folöld undan fylfullum hryssum ekki seinna en um áramót og gefa þeim inni. Þeim verður þó að hleypa út því hreyfing er þeim afar nauðsynleg. Ef hryssan er ekki fylfull er best fyrir folaldið að ganga undir yfir veturinn þó með því skilyrði að hryssan fái mikið fóður.

Að sögn Björns hafa þau hross sem hann hefur séð og eru nýkomin á hús yfirleitt verið í mjög góðu standi og vel feit.