eftir Gísla Martein Baldursson og Ólaf Teit Guðnason. 287 bls. Nýja bókafélagið. Prentun: Oddi hf. Reykjavík, 1999.

Höfundar bókar þessarar eru fréttamenn. Val og úrvinnsla efnis ber þess glögg merki. Þetta er engin sagnfræði. Fremur má þetta skoðast sem nokkurs konar fréttayfirlit við aldarlok. Saman er dregið það sem hæst bar á öldinni að mati fréttamanna, hvort heldur það nú gat talist til markverðra tíðinda eður ei. Stjórnmálum eru að sjálfsögðu gerð rækileg skil. Einnig bókmenntum og listum. Minna fer fyrir öðrum menningarmálum. Eins og háttur er fréttamanna er skotið að ýmiss konar efni sem ætlað mun til skemmtunar fremur en til fróðleiks. Athugasemdir um menn og málefni eru víða afdráttarlaus. Langmest er sagt frá því sem borið hefur við síðustu áratugina, einkum því sem tekur til afþreyingar og skemmtanalífs. Skemmtikraftar síðari ára eru margir nefndir. Dægurlaga- og textahöfundar frá fyrri hluta aldarinnar fá þar á móti naumt skammtað rúm.

Víst er þarna að finna hlutlægan fróðleik. Til dæmis eru veðrinu gerð nokkuð góð skil. Athyglisvert er hversu breytilegt það hefur verið á öldinni. Hlýskeiðinu, sem hófst á þriðja áratugnum, lauk skyndilega frá og með árinu 1965. Árið 1941 mældist hæstur meðalhiti í Reykjavík, 6,4 stig, en lægstur 1979, 2,9 stig. Þar með var hafið kuldaskeið sem enn er ekki séð fyrir endann á. Hagspekingar hafa lítt tekið þessar loftslagssveiflur með í dæmið þegar þeir hafa gert upp reikningana fyrir þjóðarbúskap Íslendinga á öldinni.

Þessi Bók aldarinnar, sem höfundarnir kjósa að kalla svo, er þó að verulegu leyti eins konar Íslandsmetabók þar sem taldir eru upp afreksmenn eða frægðarpersónur í greinum þeim sem alla jafna er sagt frá í fréttum ellegar þá áföll og fyrirbæri í náttúrunni, ennfremur bestu og verstu mannvirkin og þar fram eftir götunum: Algengustu fuglarnir, mestu hafísárin, mestu jarðskjálftarnir, ríkustu Íslendingarnir, seinheppnustu mennirnir, umdeildustu mennirnir, bestu íþróttamennirnir, bestu dægurlagahöfundarnir, vinsælustu hundanöfnin - allt er þetta meðal fyrirsagna svo dæmi séu tekin. Umdeildasta stjórnmálamanninn telja þeir hafa verið Jónas Jónsson frá Hriflu, dómsmálaráðherra eins og þeir titla hann. Ekki er hann þó á lista yfir valdamestu stjórnmálamennina. Hvers vegna var hann þá svona umdeildur? Í umsögn segir meðal annars: »Jónas virti hvorki skráðar né óskráðar reglur í orrahríð stjórnmálanna.« Þetta er harður dómur og ósanngjarn. Í tíð Jónasar einkenndust stjórnmálin meira og minna af stóryrðum og persónulegum skætingi ef ekki hreinum og beinum svívirðingum. Að bendla Jónas við þann óvana öðrum fremur er fjarstæða. Hitt er annað mál að hann var afburða ritfær og þeim mun sárar sveið undan orðum hans. Sjaldan eða aldrei greip hann til stóryrða en gat verið neyðarlegur.

Í kaflanum Saga og arfur eru nokkrar síður um »bestu« bækur aldarinnar. Helst er að skilja að höfundarnir hafi stuðst við álit meðdómenda ýmissa, eða dæmt að bestu manna yfirsýn eins og segir í fornum fræðum. Meðal tíu bestu ljóðabókanna eru taldar tvær eftir Stein Steinarr, Ferð án fyrirheits og Spor í sandi, og tvær eftir Einar Benediktsson, Vogar og Hrannir. Óþarft sýnist að nefna sömu höfundana tvisvar. Auk þess er alltaf hæpið að benda á eina hvað þá tvær bækur skálds og segja að þær séu fortakslaust bestar. Sú bók Steins, sem mestum olli straumhvörfunum, var sennilega Tíminn og vatnið. Mestu og þekktustu kvæði Einars birtust ekki í umræddum bókum heldur í bókinni Sögur og kvæði sem kom út fyrir aldamót, nánar til tekið 1897. Eina bók vantar tilfinnanlega í þennan tíu bóka lista ef ætlunin var að nefna bækur sem þóttu skara fram úr og höfðu víðtæk og varanleg áhrif í ljóðlistinni, en það er Söngvar förumannsins eftir Stefán frá Hvítadal. Þar kvað við nýr lífstónn í íslenskri ljóðagerð, ári fyrr en Davíð sendi frá sér Svartar fjaðrir.

Þegar kemur að merkustu sagnfræðiritunum var sannarlega úr mörgu að velja. Að venju eru tíu talin í forgangsröð. Síðar er fáeinum bætt við neðanmáls. Ekki er Einokunarverzlun Dana á Íslandi eftir Jón J. Aðils þar á meðal. Hún kom út 1919 og telst til undirstöðurita. Hvergi er heldur nefnd Saga Akureyrar eftir Jón Hjaltason. Hún er þó stórvel skrifuð og langfremst slíkra rita sem mörg hafa séð dagsins ljós á undanförnum árum. Sumum höfundum er aldrei neinn sómi sýndur, hversu vel sem þeir gera.

Á ævisagnalistanum er Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar skipað í fremsta sæti en í öðru sæti er Saga Eldeyjar-Hjalta eftir Guðmund G. Hagalín. Hvort tveggja ritið sómir sér vel á hvaða topp tíu-lista sem er. Eftir Hagalín hefði þó miklu fremur átt að nefna Virka daga. Það er ekki aðeins besta ævisagan sem Hagalín skráði um dagana heldur - og það sem meira varðar - fyrsta rit sinnar tegundar sem fært var í letur á landi hér, það er að rithöfundur skrásetti sögu eftir frásögn annars manns, sögumanns.

Nokkrar síður eru þarna um mistök og axarsköft af ýmsu tagi, til að mynda um skondnustu þýðingarvillurnar og undarlegustu mannamótin. Hugsanlega getur einhver skemmt sér við að rifja upp þess konar fræði á næstu öld. Fréttamannasagnfræði væri líklega réttast að kalla rit þetta.

Erlendur Jónsson