EINUM farsælasta keppnisferli leikmanns í NBA-deildinni er sennilega lokið. Charles Barkley hafði ætlað að leika út keppnistímabilið með Houston Rockets áður en hann legði skóna á hilluna, en sú áætlun hans varð að martröð í Fíladelfíuborg á miðvikudagskvöld þegar hann meiddist illilega á hné.
Barkley var ákaft fagnað fyrir leik Philadelphia og Houston, en þetta hefði verið síðasti leikur Sir Charles í borginni þar sem hann lék sín fyrstu átta keppnistímabil. á áttundu mínútu leiksins féll hann illa eftir tilraun til að verja skot undir körfunni. Hann var færður til læknisherbergisins þar sem skoðun leiddi í ljós að hann var með slitna sin í vinstra hné.

Þegar í ljós kom að bati myndi taka a.m.k. sex mánuði hringdi hann í eiginkonu sína og sagði að ferlinum væri lokið. Hann fór svo á hækjum til varamannabekkjar Houston þar sem hann sat til leiksloka. Eftir leikinn talaði hann við fréttamenn. Að venju gerði hann grín, en Barkley var einn vinsælasti leikmaðurinn í deildinni meðal fréttamanna. "Kynlíf er sjálfsagt úr sögunni í kvöld hjá mér. Ég vildi bara láta ykkur vita það í upphafi," byrjaði hann, en breytti þó um tón fljótlega.

"Stóri maðurinn uppi er víst að senda mér skilaboð í kvöld að ég ætti að enda keppnisferilinn þar sem hann hófst. Það er sjálfsagt ekki tilviljun að margir sem sáu leikinn í kvöld sáu einnig fyrsta leikinn minn," bætti hann við. Þess má geta að Barkley er mjög vinsæll í Fíladelfíuborg, en þar býr hann á sumrin. "Ég er að sjálfsögðu vonsvikinn að þetta kom fyrir, en ég held að þetta hafi bara átt að gerast svona. ég á of margar góðar minningar frá keppnisferlinum og ég ætla ekki að láta þetta atvik skyggja á það í kvöld," sagði hann í lokin.

Líkami Barkley gafst loks upp eftir fimmtán ára feril. Hann lék fyrst með þeim Moses Malone og Julius Erwing eftir að hann kom inn í NBA deildina frá Auburn háskólanum í Alabama. Hann var seldur til Phoenix Suns 1992 þar sem hann komst loks í lokaúrslitin árið eftir. Það ár vann hann einnig titilinn "leikmaður ársins". Fyrir rúmum tveimur árum síðan var hann loks seldur til Houston þar sem hann lauk ferlinum.

Barkley var þekktastur fyrir hetjulega baráttu við mun hærri leikmenn undir körfunni. Hann vann frákastatitilinn 1987 og var ávallt meðal frákasthæstu leikmanna á hverju keppnistímabili. Hann er einn af þremur leikmönnum í sögu deildarinnar sem náðu að skora 20 þúsund stig, taka tíu þúsund fráköst og senda fjögur þúsund stoðsendingar. Hinir tveir eru Wilt Chamberlain og Kareem Abdul Jabbar. Barkley skoraði alls 23.755 stig og tók 12.545 fráköst. Hann lék níu sinnum í NBA stjörnuleiknum.

Shaquille O'Neal var spurður um Barkley að loknum leik Sacramento og Los Angeles Lakers. "Charles var ekki hár í loftinu, en hann bætti það upp með mikilli hörku og geysilegu keppnisskapi. Hann er einn af bestu leikmönnum fyrr og síðar. Ég mun sakna hans mikið," sagði O'Neal.

Stórleikur miðvikudagkvölds var viðureign tveggja bestu liðanna þegar O'Neal og félagar hans í Lakers sóttu Sacramento heim. Heimaliðið hafði forystu nær allan leikinn og vann sannfærandi, 103:91. Sacramento stöðvaði sex leikja sigurgöngu Lakers og vann einnig sinn sjöunda leik á heimavelli. Chris Webber var stigahæstu heimamanna með 20 stig. "Þessi sigur kemur okkur ekkert á óvart. Við ætlum okkur stóra hluti í vetur og mér er persónulega sama um hver mótherji okkar er. Við höfum trú á að við getum unnið hverja sem er," sagði Webber í leikslok. Kobe Bryant og Shaquille O'Neal skoruðu báðir 27 stig fyrir Lakers, en varamenn Sacramento skoruðu 48 stig gegn 16 stigum varamanna Lakers.

Chicago Bulls tapaði fimmtánda af sextán leikjum sínum gegn Cleveland, 93:107. Þetta er versta byrjun Bulls í sögu félagsins. Þess má geta í lokin að Philadelphia 76ers vann Houston, 83:73, í leiknum þegar Barkley meiddist.

Gunnar Valgeirsson skrifar frá Bandaríkjunum