Páll Hersteinsson
Páll Hersteinsson
Páll Hersteinsson fæddist 22. mars 1951 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971 og BSc-prófi frá Háskólanum í Dundee í Skotlandi árið 1975 í lífeðlisfræði.

Páll Hersteinsson fæddist 22. mars 1951 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971 og BSc-prófi frá Háskólanum í Dundee í Skotlandi árið 1975 í lífeðlisfræði. Doktorsgráðu frá háskólanum í Oxford lauk Páll árið 1984 í dýrafræði. Rannsóknarverkefni hans til doktorsprófs var íslenski refurinn - vistfræði og atferli hans. Páll var veiðistjóri ríkisins frá 1985 til 1995 en þá varð hann prófessor við Háskóla Íslands og kennir þar atferlisfræði og vistfræði spendýra. Hann hefur samið og gefið út þrjár bækur. Agga gagg: Með skollum á Ströndum kom út 1997. Í ár koma út tvær bækur: Smásagnasafnið Línur og myndabókin Refirnir á Hornströndum. Páll er kvæntur dr. Ástríði Pálsdóttur sérfræðingi á Keldum og eiga þau tvo syni.

Páll Hersteinsson fæddist 22. mars 1951 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971 og BSc-prófi frá Háskólanum í Dundee í Skotlandi árið 1975 í lífeðlisfræði. Doktorsgráðu frá háskólanum í Oxford lauk Páll árið 1984 í dýrafræði. Rannsóknarverkefni hans til doktorsprófs var íslenski refurinn - vistfræði og atferli hans. Páll var veiðistjóri ríkisins frá 1985 til 1995 en þá varð hann prófessor við Háskóla Íslands og kennir þar atferlisfræði og vistfræði spendýra. Hann hefur samið og gefið út þrjár bækur. Agga gagg: Með skollum á Ströndum kom út 1997. Í ár koma út tvær bækur: Smásagnasafnið Línur og myndabókin Refirnir á Hornströndum. Páll er kvæntur dr. Ástríði Pálsdóttur sérfræðingi á Keldum og eiga þau tvo syni.

RANNSÓKNIR á vistfræði og atferli refa undanfarin tvö ár í friðlandinu á Hornströndum er efni nýútkominnar bókar Páls Hersteinssonar prófessors við Háskóla Íslands. Hann gefur einnig út í ár smásagnasafnið Línur. Hann var spurður um tildrög þess að hann fór að rannsaka lífshætti refa á Íslandi.

"Þetta rannsóknarefni nær rúmlega tuttugu ár aftur í tímann. Tildrögin eru þau að refurinn er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi og lífshættir þess voru mjög illa þekktir. Fyrir utan það að rannsaka atferli refanna athugaði ég líka fæðuval. Ég hef einnig athugað stærð refastofnsins, frjósemi, viðkomu og vanhald."

- Hvers vegna fórstu að rannsaka refinn á Hornströndum?

"Ástæðan fyrir því að þessar rannsóknir hófust á Hornströndum er í raun tvíþætt; í fyrsta lagi er nauðsynlegt að refirnir séu friðaðir til þess að hægt sé að rannsaka ferðir þeirra frá óðali foreldranna. Sambærilegar ástæður voru ekki fyrir hendi annars staðar og voru raunar ekki heldur fyrir hendi á Hornströndum fyrr en eftir 1994. Hin ástæðan er sú að ég taldi mikilvægt að fá frekari upplýsingar um áhrif friðunarinnar á stærð refastofnsins á svæðunum í grennd við friðlandið. Æskilegt hefði verið að kanna þessi mál einnig fyrir friðunina til þess að fá samanburðinn en fjármunir fengust ekki til slíkra rannsókna."

- Hvað kom út úr þessum rannsóknum?

"Rannsóknunum er ekki lokið og ástæðan fyrir því að þessi bók kemur út núna er sú að ég og samstarfsfólk mitt, Hólmfríður Sigþórsdóttir og Ester Rut Unnsteinsdóttir, tókum mikið af góðum myndum af refunum sem við vorum að rannsaka og ég taldi mikilvægt að þær kæmu fyrir sjónir almennings, ekki síst vegna þess að Íslendingar vita furðu lítið um þennan frumbyggja landsins sem refurinn er. Ótrúlega margir þekkja t.d. ekki sundur ref og mink þótt þeir þekki sundur ljón og tígrisdýr."

- Þú hefur líka samið smásögur - ertu nýbyrjaður á því?

"Það að ég tók að skrifa smásögur má rekja til þess þegar veiðistjóraembættið var sent norður til Akureyrar og ég hætti sem veiðistjóri. Þá leit út fyrir það á tímabili að ég hætti með öllu afskiptum af rannsóknum og ég hafði alltaf haft gaman af að skrifa þótt ekki hefði unnist tími til þess áður að setjast niður til að skrifa smásögur. Ég komst að því að ég hafði gaman af þessu formi - smásagnagerðinni - og það sem meira máli skipti, þá höfðu þeir sem ég las sögurnar fyrir gaman af þeim líka. Það varð til þess að ég ákvað að gefa þessar tíu sögur út á bók."

- Eiga þessar sögur sér raunverulegar forsendur?

"Maður tínir til hluti héðan og þaðan, sumt úr eigin lífi, sumt úr lífi fólks sem maður þekkir. Annað er svo spunnið út frá þessum einstöku atvikum."

- Hefur þú lesið mikið af bókmenntum?

"Í nánast tuttugu ár las ég nánast ekkert nema fagbókmenntir um mitt sérsvið og var í mikilli hættu að verða alger "fagídíót", en eftir að ég fór að skrifa smásögur hef ég reynt að lesa meira af skáldverkum, hef knúið mig til þess að lesa ekki fagrit utan vinnutíma."

- Eru smásögurnar skrifaðar í einhverjum sérstökum stíl, að þínu eigin mati?

"Ég lagði mig fram um að hafa þær fjölbreytilegar þannig að bæði stíll og efni kæmi lesandanum á óvart."

- Hvort finnst þér skemmtilegara - að skrifa um refina eða smásögurnar?

"Þegar vel tekst til finnst mér skemmtilegra að skrifa smásögur. Hitt krefst aðgaðri vinnubragða þegar skrifað er út frá rannsóknum. Í söguskrifum er hins vegar hægt frekar að láta gamminn geisa og leyfa hugarfluginu að taka völdin."

- Ætlar þú að halda áfram rannsóknum á refunum?

"Fjármunir til rannsókna á Íslandi eru naumt skammtaðir og vísindamaður getur aldrei verið viss um að hann fái nægilega fjármuni frá ári til árs, en hugur minn stendur til þess að halda áfram rannsóknum á íslenska refnum enn um sinn."