ÁKVEÐIÐ hefur verið að árlegt innanhússmót ÍR í frjálsíþróttum verði haldið 5. mars á næsta ári, en ekki í janúar eins og undanfarin þrjú ár, en mótið verður nú haldið í fjórða skipti.

ÁKVEÐIÐ hefur verið að árlegt innanhússmót ÍR í frjálsíþróttum verði haldið 5. mars á næsta ári, en ekki í janúar eins og undanfarin þrjú ár, en mótið verður nú haldið í fjórða skipti. Hingað til hefur mótið verið á dagskrá síðustu helgi janúar en að sögn Þráins Hafsteinssonar, hjá frjálsíþróttadeild ÍR, eru tvær ástæður fyrir því að mótið verður seinna á dagskrá á næsta ári. "Í fyrsta lagi er að bestu frjálsíþróttamenn landsins taka þátt í Evrópumeistaramótinu innanhúss í lok febrúar og verða þeir í sinni bestu æfingu um það leyti sem mótið fer fram og því meiri von um að þeir standi sig enn betur en áður á ÍR-mótinu verði það haldið í kjölfar Evrópumeistaramótsins.

Einnig skiptir það máli að Evrópukeppnin í handknattleik verður á dagskrá síðustu daga janúar og því viðbúið að við yrðum í mikill samkeppni um athygli á þeim tíma," segir Þráinn.

"Einnig gefur þessi tímasetning í byrjun mars okkur meiri möguleika á að fá sterka erlenda keppendur í toppstandi á helsta tíma keppnistímabilsins innanhúss," segir Þráinn ennfremur.

ÍR-mótið hefur orðið æ vinsælla á meðal almennings, að sögn Þráins, og hefur áhorfendum fjölgað jafnt og þétt með hverju árinu. Þá hefur gengið vel að fá erlenda keppendur til mótsins og hafa komið til þess nokkrir af þekktustu frjálsíþróttamönnum samtímans, má þar nefna Tomás Dvorák, heimsmethafa og heimsmeistara í tugþraut, og Anzhelu Balakhonovu, Evrópumeistara og Evrópumetshafa í stangarstökki kvenna. Hefur Balakhonova meira að segja komið tvisvar.