NORSKA liðið Rosenborg leitar að nýjum markverði ef marka má fréttir í norskum fjölmiðlum í gær. Sagt er að Frode Olsen, markvörður Stabæk og landsliðsins, og Magnus Kihlstedt hjá Brann séu efstir á óskalistanum hjá félaginu. Talað er um að ef Kihlstedt verði fenginn frá Brann væri Rosenborg tilbúið að láta íslenska markvörðinn Árna Gaut Arason í staðinn.
Það eina sem ég hef heyrt af þessu máli er það sem hefur verið í blöðunum hér í Noregi. Forráðamenn Rosenborg hafa ekki rætt þetta við mig. Ég held að þetta séu aðallega vangaveltur fjölmiðla eftir að Jörn Jamtfall, aðalmarkvörður liðsins, var gagnrýndur fyrir slaka frammistöðu í leiknum gegn Real Madrid á þriðjudagskvöld," sagði Árni Gautur við Morgunblaðið.

Hann sagðist sjálfur vera ósáttur við að hafa ekki fengið fleiri tækifæri með liðinu. "Ég spilaði sex leiki í norsku deildinni á síðustu leiktíð og einhverja bikarleiki. Það er minna en ég tel mig eiga skilið. Ég hef ekki fengið tækifæri í Meistaradeildinni núna en þar virðist þjálfarinn velja mann með reynslu fram yfir mig. Ég fæ hins vegar ekki mikla reynslu ef ég fæ ekki að spreyta mig meira en verið hefur," sagði hann.

Aðspurður hvort hann væri tilbúinn að fara til Brann í skiptum fyrir Kihlstedt ef það kæmi upp á borðið sagðist hann vera opinn fyrir því. "Það væri gaman, sérstaklega þar sem Teitur Þórðarson hefur tekið við þjálfun hjá félaginu. Brann er besti kosturinn hér í Noregi fyrir utan Rosenborg. Í Bergen er mikill áhugi á fótbolta og góð stemmning þar í kringum leiki. En eins og ég sagði áðan, veit ég ekki til þess að ég sé á förum frá Rosenborg. Ég á enn eitt ár eftir af samningi mínum við félagið," sagði hann.

Árni Gautur er 24 ára og hefur verið varamarkvörður Rosenborgar og landsliðsins undanfarin misseri. "Ég geri mér grein fyrir því að ég á meiri möguleika í landsliðið ef ég spila meira. Ég er orðinn svolítið pirraður á því að fá ekki fleiri tækifæri með Rosenborg, það er ekkert leyndarmál."

Hann kemur heim í dag í langþráð frí. "Já, það verður gott að koma heim, en ég er ekki alveg í fríi því ég hef verið í lögfræðinámi utan skóla og þarf að fara í próf í Háskóla Íslands í næstu viku. Ég þarf síðan að vera mættur aftur út til Noregs eftir áramót og fer með liðinu til Spánar á mót sem hefst þar 7. janúar."