eftir Bent Jørgensen. Teikningar eftir Birde Poulsen. Gissur Ó. Erlingsson þýddi. 45 bls. Útgefandi er Skjaldborg, Reykjavík, 1999.

SÖGUR af dýrum eru í miklu uppáhaldi meðal hinna yngri lesenda og vekja jafnan mikinn áhuga á lífi þeirra og háttum. Með lestri á góðum sögum úr ríki dýranna öðlast börn og unglingar gleggri skilning á hinu margflókna lífi frá öðrum sjónarhóli en þeim er tamt. Það eiga tiltölulega fáir kost á að umgangast dýr nú á dögum og eru einu kynni margra við þau þess vegna aðeins með lestri bóka. Þó að mannskepnan telji sér ætíð trú um hve einstæð og stórkostleg hún sé, eigum við óneitanlega margt sameiginlegt með mörgum öðrum dýrum. Menn mega minnast þess, að ytra útlit segir ekki allt, því að oft og tíðum er innri starfsemi nauðalík. Margt í fari og háttum dýra á sér því hliðstæður meðal manna.

Það er vel til fundið hjá höfundi þessarar bókar að taka fyrir veiðiaðferðir tíu ólíkra dýra og skrifa um þær á þann hátt, að aðdáun vekur. Frásögnin er víða áhugaverð, enda má ætla, að sá, sem hér segir frá, sé gjörkunnugur lifnaðarháttum flestra dýra eftir áralangt starf sem forstöðumaður dýragarðsins í Kaupmannahöfn. Sjaldnast er farið djúpt í hlutina, heldur er látið nægja að skýra helztu atriði í stærstu dráttum. Bókin verkar því sem nokkurs konar hungurvaka fyrir yngstu lesendur, sem án efa langar til þess að vita meira. Ágætar teikningar prýða bókina.

Bókin er þýdd á lipurt mál, en því miður hafa fræðiorð ekki komizt klakklaust til skila. Sem dæmi má nefna, að tegundir eru sagðar vera afbrigði (bls. 39 og 42) og búsvæði eða kjörlendi er alls staðar kallað vistsvæði. Þá tel eg miklu réttara að nefna afkvæmi ljóns og blettatígurs kettlinga en hvolpa af þeirri einföldu ástæðu, að þau tilheyra kattaætt. En svo vill til, að sama útgáfufyrirtækið og að bók þessari stendur, hefur sent frá sér aðrar dýrabækur, þar sem notkun fræðiorða er til mikillar fyrirmyndar. Það er því leitt að sjá, að hér er slakað á þeim kröfum.

Ágúst H. Bjarnason