Selma hélt glæsilega útgáfutónleika á dögunum þar sem hún flutti lögin af nýju plötunni.
Selma hélt glæsilega útgáfutónleika á dögunum þar sem hún flutti lögin af nýju plötunni.
SELMA Björnsdóttir hefur sungið sig inn í hjörtu Íslendinga með frammistöðu sinni í Evróvisjón-keppninni síðustu, því hún er ennþá í efsta sæti Tónlistans, fjórðu vikuna í röð, og stefnir hraðbyri í gullsölu.

SELMA Björnsdóttir hefur sungið sig inn í hjörtu Íslendinga með frammistöðu sinni í Evróvisjón-keppninni síðustu, því hún er ennþá í efsta sæti Tónlistans, fjórðu vikuna í röð, og stefnir hraðbyri í gullsölu. Pottþétt 18 fylgir fast í kjölfar Selmu, en það er nýjasta platan í Pottþétt-seríunni. Íslandslög 4 með Björgvini Halldórssyni og félögum hækkar sig um sæti milli vikna og nýja platan með Celine Dion er komin í 4. sætið, en dómur um plötu hennar er hér á síðunni.

Þungarokkararnir í Metallica gera það gott með sinfóníuhljómsveitinni í San Francisco og Sálin hans Jóns míns á sinn trygga aðdáendahóp, en hljómsveitin hélt útgáfutónleika í gærkvöldi.

Margar aðrar íslenskar plötur eru á listanum og klífur barnaplatan Jabadagadú einna hæst. Ágætis byrjun Sigur Rósar hefur nú verið í 26 vikur á listanum og virðist ekkert lát á vinsældum þeirra félaga. Nýja Quarashi-platan er einnig að gera það gott á listanum og hækkar sig um tvö sæti milli vikna. Emilíana Torrini, Land og synir, Geirmundur Valtýsson, Maus, Páll Óskar, Jagúar, Friðrik Karlsson og Ensími eru síðan aftar á listanum. Athygli vekur að Guitar Islancio kemur ný inn á listann en þar leika þeir Gunnar Þórðarson, Björn Thoroddsen og Jón Rafnsson af fingrum fram.