eftir Pál Hersteinsson. 110 bls. Útgefandi er bókaforlagið Ritverk, Reykjavík, 1999. Verð 4490 kr.

REFUR (Canis lagopus) er elzti landnemi spendýra hér. Til skamms tíma hefur skepna þessi notið lítillar virðingar og hart verið sótt að henni um langan aldur. Svo harðsnúnir hafa menn verið í garð tófunnar, að lögum samkvæmt átti skilyrðislaust að útrýma henni hér á landi. Á þessu varð þó gæfusöm breyting með lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á fuglum og spendýrum; þá var Hornstrandarefurinn friðaður. Ekki er þó öll sagan sögð, því að annars staðar á landinu fá menn óátalið að bera út sláturúrgang og liggja fyrir tófu um veturnætur, þegar æti er af skornum skammti, þó að það sé bannað samkvæmt evrópskum lögum. Menn skirrast ekkert við að segja frá þessu á opinberum vettvangi.

Páll Hersteinsson hefur lengi athugað hætti refa og í nýútkominni bók sinni segir hann í máli og myndum frá nokkrum fjölskyldum, sem lifðu á Hornströndum. Óðul refanna náðu frá Kjaransvík í vestri austur á Hælavíkurbjarg. Nokkrir refir, einkum yrðlingar, voru búnir gervihnattasendum, svo að unnt væri að fylgjast með ferðum þeirra. Í stuttu máli er greint frá umstanginu í kringum refina. Ginna þurfti þá í gildrur og síðan var fylgzt með þeim úr fjarska. Sannaðist þá hið fornkveðna, að illt er að ginna gamlan ref. Að mestu er bókin prýdd 110 litmyndum með stuttum textum, þar sem sagan um einstaka refi er rakin.

Á flestum myndum eru refirnir með eyrnamerki eða hálsbönd og líta því ekki út fyrir að vera villtir. Þess vegna er textinn nauðsynlegur til að segja frá í hverju athuganirnar voru fólgnar. Vandinn við að semja myndatexta, sem vekja forvitni, er að þar segi eitthvað meira en áhorfandinn sér sjálfur. Textar Páls eru einkum af tvennum toga; annars vegar hefur hann valið þann kostinn að segja sögu af refum frá þeirra eigin sjónarhóli, ef svo má að orði komast: »Það er gaman, þegar pabbi kemur heim. « og hins vegar bein lýsing á aðstæðum: »Sumarfeldurinn er byrjaður að losna.« Þetta gerir, að sagan verður nokkuð slitrótt en engu að síður er hún um margt forvitnileg. Reyndar er það með eindæmum, hve gæfir yrðlingarnir eru eða öllu heldur verða, ef vel er að þeim farið. Hins vegar saknar maður þess, að ekki skuli vera sagt meira frá lifnaðarháttum melrakkans og einkum hverjar voru niðurstöður athugananna. Gaman hefði verið að vita til dæmis um helztu matföng og hve hratt yrðlingarnir þyngdust. Þá hefði mátt marka óðul hverrar fjölskyldu á kortin, sem eru innan á bókarkápu, og helztu ferðir refannna. Slíkt hefði aukið fræðslugildi bókarinnar.

Myndirnar eru mjög misjafnar; sumar eru afbragð en aðrar ekki nema rétt í meðallagi. Þegar velja skal myndir í góða bók þarf að gera strangar kröfur og hafa þær frekar færri en fleiri. Að mínum dómi er bezta myndin á bls. 99. Þá eru margar myndanna hver annarri líkar og að ósekju hefði mátt fækka þeim. Sjá til dæmis myndir á bls. 62, 63, 64, 66, 67 og 69, svo að dæmi sé tekið. Litgreining og prentun eru hins vegar prýðisvel af hendi leyst í Prentsmiðjunni Odda.

Í inngangi bókarinnar segir Páll frá því, hve lengi var erfitt að fá styrki til þess að rannsaka lifnaðarhætti refsins og skilningsleysi manna í ráðuneyti landbúnaðar (í tíð Pálma Jónssonar) og síðar í umhverfisráðuneyti. Þráfaldlega var skellt skolleyrum við því, að rannsaka þyrfti háttalag refsins, og einmitt á þeim tíma, sem einstakt tækifæri gafst. Því miður er þetta ekki eina dæmið um skilningsleysi misviturra ráðamanna á gildi náttúrufræðirannsókna.

Þess er að vænta, að athuganir Páls Hersteinssonar á ref leiði smám saman til þess, að hann fái að njóta sannmælis og litið verði á hann sem fullgildan þegn í ríki náttúrunnar. Þá er þakkarvert, að almenningur fær að fylgjast með framgangi verksins í ágætri bók sem þessari, sem án efa verður kærkomin lesning hinum fjölmörgu, sem unna íslenzkri náttúru.

Ágúst H. Bjarnason