[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mannúðarmál hafa verið ofarlega á baugi hjá Rauða krossi Íslands á starfstíma deildarinnar, en RKÍ fagnar 75 ára afmæli sínu um þessar mundir.

ÍSLANDSDEILD Rauða krossins var stofnuð 10. desember 1924. Forgöngu um stofnun RKÍ hafði hópur lækna og var fyrsti formaðurinn Sveinn Björnsson, hæstaréttarlögmaður og síðar forseti Íslands.

Fyrsta innanlandsdeild Rauða krossins var starfrækt á Akureyri frá 1925. Á fimmta áratugnum var síðan farið að stofna deildir víðar um landið. 1950 var Reykjavíkurdeildin stofnuð og Kvennadeild Reykjavíkurdeildar árið 1965.

Starf Rauða krossins hefur tekið umtalsverðum breytingum á þessum tíma. Nú er 51 deild starfrækt innan RKÍ og eru félagsmenn nær 18 þúsund. Starfið byggist að miklu leyti á vinnu sjálfboðaliða og fer þeim fjölgandi að sögn Önnu Þrúðar Þorkelsdóttur, formanns RKÍ.

"Við höfum mörgum hlutverkum að gegna í íslensku samfélagi," segir Anna Þrúður og kveðst efast um að almenningur geri sér grein fyrir hve fjölbreytt starfið er.

Sjúkraflutningar og skyndihjálparfræðsla hafa t.d. lengi verið mikilvægir þættir í starfi RKÍ, sem og samstarf við Almannavarnir um neyðarvarnir. Þá rekur RKÍ athvörf fyrir börn, unglinga og geðfatlaða.

"Við höfum reynt að finna hvar skóinn kreppir, því fyrsta og stærsta hlutverk Rauða krossins er náttúrulega mannúðarhugsjón," segir Anna Þrúður. "Að sinna þeim sem minnst mega sín og ekki er nægilega vel sinnt af öðrum."

Rauðakrosshúsið var opnað börnum og unglingum 1985 og Vin og Dvöl fyrir geðfatlaða á þessum áratug. Húsin hafa verið vel sótt frá því þau voru opnuð og það sýnt sig að þörf er á þjónustunni, en þangað geta allir leitað á eigin forsendum. Trúnaðarsíminn hefur einnig gefist vel og bárust rúmlega 5000 símtöl í fyrra.

Öflugt sjálfboðaliðastarf

Á vegum Reykjavíkurdeildar RKÍ er starfrækt sjálfboðamiðstöð sem fólk getur leitað til hafi það áhuga á að leggja Rauða krossinum lið. Þá er starfrækt ungliðahreyfing og kvennadeildir sem til að mynda heimsækja fólk á sjúkrahús. Einnig tók RKÍ nýlega upp á því að heimsækja fanga og þá sem þess óska á Sogni.

Anna Þrúður segir landsmenn almennt bregðast vel við söfnunarstarfi RKÍ. "Við fáum yfirleitt mjög góð viðbrögð," segir hún og bendir á matarpakkana sem sendir voru til Kosovo í fyrra sem dæmi.

Stærsta baráttumál RKÍ þessa stundina er hins vegar stofnun verkþjálfunarskóla að danskri fyrirmynd. Skólinn er ætlaður ungu fólki, sem ekki hefur vinnu og er t.d nýkomið úr vímuefnameðferð eða fangelsi. Námið á að virka verkhvetjandi á þá sem það sækja og forða þeim frá að falla aftur í sama farið. "Þetta hefur gefist vel í Danmörku sem félagslegt úrræði," segir Anna Þrúður og kveðst bjartsýn á velvilja íslenskra stjórnvalda, en sveitarstjórnir, sem og félagsmála- og menntamálaráðuneyti eru áhugasöm um þetta verkefni.

Hjúkrunarmál ofarlega á baugi

Starf Rauða kross Íslands var í fyrstu nokkuð ólíkt því sem nú þekkist. Til dæmis var lögð mikil áhersla á hjúkrunarmál og starfaði hjúkrunarkona á Akureyri við heimahjúkrun, skólahjúkrun og berklavernd til ársins 1936. Þá var rekið sjúkraskýli til aðstoðar sjómönnum í Sandgerði um áratuga skeið og á stríðsárunum var komið upp forðabúri hjúkrunargagna og undirbúin bráðabirgðasjúkrahús í skólum Reykjavíkur.

RKÍ rak einnig forskóla fyrir hjúkrunarnema um árabil og hafði forgöngu um að störf sjúkraliða voru innleidd og kennsla hafin. Í stríðslok sendi RKÍ síðan Lúðvíg Guðmundsson skólastjóra til að liðsinna þeim íslensku ríkisborgurum sem voru bjargarvana í Evrópu vegna afleiðinga styrjaldarinnar. Auk þess sem félagið starfrækti barnaheimili í um tvo áratugi.

Í gegnum árin hefur RKÍ jafnframt sinnt ótal hjálparbeiðnum vegna náttúruhamfara og annarra hörmunga og gegndi félagið til að mynda mikilvægu hlutverki í Vestmannaeyjagosinu.