Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, í ræðustól á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins í gær. Aðrir framsögumenn og fundarstjóri hlýða á: Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, Hannes G. Sigurðsson, hagfr
Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, í ræðustól á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins í gær. Aðrir framsögumenn og fundarstjóri hlýða á: Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, Hannes G. Sigurðsson, hagfr
AÐ GEFNUM ákveðnum forsendum geta óraunhæfir kjarasamningar leitt til fjármálakreppu. Þetta kom fram í erindi Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins í gær.

AÐ GEFNUM ákveðnum forsendum geta óraunhæfir kjarasamningar leitt til fjármálakreppu. Þetta kom fram í erindi Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins í gær. Auk Tryggva héldu erindi Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins og Hannes G. Sigurðsson, hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins.

Forsendurnar sem Tryggvi nefnir eru að Seðlabankinn víki ekki frá aðalmarkmiði sínu um verðstöðugleika og felli ekki gengið til að leiðrétta kjarasamninga. Aðilar vinnumarkaðarins taki þá yfirlýsingu ekki trúanlega og samið verði upp á gamla mátann þannig að fallið verði í freistni og litið framhjá því að afkastagetan er fullnýtt.

Gæti verið viturlegt að taka upp evruna

Tryggvi segir of há laun myndu leiða til aukinnar spennu á vinnumarkaðinum með tilheyrandi óvissu, gjaldþrotum og atvinnuleysi og vanskil myndu aukast. Tiltrú erlendra lánardrottna myndi minnka og fjármögnun skammtímalána yrði erfiðari. Þrýstingur ykist á gengið og virði íslensku krónunnar myndi minnka. Greiðslubyrði lánastofnana myndi aukast þar sem skuldirnar eru í erlendri mynt en lánin í íslenskum krónum. Þetta er sérstaklega alvarlegt að mati Tryggva þar sem eiginfjárhlutfall bankanna hefur verið að minnka.

"Við þessi skilyrði myndu fjárfestar, innlendir og erlendir, missa tiltrú á íslensku atvinnulífi sem gæti leitt til fjárflótta úr landi sem myndi enn minnka virði krónunnar og auka enn vanda bankakerfisins. Seðlabankinn gæti lítið gert í þessari atburðarás þar sem gjaldeyrisforðinn er of lítill um þessar mundir til að verja gengið meiriháttar áföllum," segir Tryggvi.

Hann komst að þeirri niðurstöðu að nú sé mikilvægara en áður að samið sé með stöðugleika að markmiði. "Það er mikilvægt að Seðlabankinn geri aðilum vinnumarkaðarins grein fyrir því að verðstöðugleiki er aðalmarkmið hans og þetta gæti kallað á enn frekara sjálfstæði Seðlabanka frá framkvæmdavaldinu til að gera yfirlýsinguna trúverðuga. Ef stjórnvöld treysta sér ekki til að framfylgja þessari stefnu gæti verið viturlegt að taka upp evru á Íslandi með því að ganga í Evrópusambandið. Þannig væri aðilum vinnumarkaðarins fullkomlega ljóst að þeim yrði ekki komið til bjargar ef samið yrði á óraunhæfum nótum."

Frumkvæði stjórnvalda nauðsynlegt

Hannes G. Sigurðsson, hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins, reifaði norsku leiðina svokölluðu í Morgunblaðinu í gær. Í Noregi hafa aðilar frá samtökum launþega og samtökum vinnuveitenda, auk aðila frá hinu opinbera komið sér saman um að launahækkanir í Noregi þyrftu að komast í sama takt og í viðskiptalöndunum á næstu tveimur árum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að launahækkanir í Noregi hefðu farið úr böndunum og með samkomulaginu hafa helstu samtök launafólks og atvinnurekenda í Noregi skuldbundið sig til að stefna að tilteknum hámarkslaunabreytingum á komandi samningstímabilum.

Norska leiðin er kölluð samstöðuleið og er Hannes talsmaður þess að hún verði farin á Íslandi.

Hannes sagði í umræðum eftir erindin að samráðsvettvangur ætti ekki að vera málfundur heldur yrðu forystumenn aðila vinnumarkaðarins að koma saman á sterkum vettvangi. Skoðanir hans fengu góðan hljómgrunn í umræðum eftir fundinn, m.a. hjá Ara Skúlasyni framkvæmdastjóra og Eddu Rós Karlsdóttur, hagfræðingi ASÍ.

Ari segir mikilvægt og nauðsynlegt að koma á slíkum samráðsvettvangi og ríkisvaldið væri lykilaðili í því máli. Edda Rós tók undir þá skoðun að frumkvæði yrði að koma frá hinu opinbera og stjórnvöld þyrftu jafnframt að breyta því viðhorfi að önnur lögmál giltu á Íslandi en í viðskiptalöndunum. Aðgerðir hins opinbera væru lykilatriði í þróun á næstu mánuðum. Með breyttum viðhorfum og þátttöku hins opinbera í samráðsvettvangi væri kominn grundvöllur fyrir samstöðuleiðina. Edda Rós lagði einnig þunga áherslu á að félagsmenn VMSÍ hefðu lágar tekjur og helmingur þeirra eða um 15 þúsund manns, hefði undir 80 þúsundum króna í mánaðarlaun.

Sömu lögmál á Íslandi og annars staðar

Á fundinum kom fram að launabreytingar verði að taka mið af getu þeirra atvinnugreina sem búa við erlenda samkeppni, svokallaðra samkeppnisgreina, í því sambandi væri lykilatriði að í íslensku efnahagslífi gilda ekki önnur lögmál en í viðskiptalöndunum.

Í erindi Ingólfs Bender, hagfræðings Samtaka iðnaðarins, kom fram að stjórnendur fyrirtækja í framleiðsluiðnaði telja að launahækkanir á þessu og síðasta ári hafi vegið mjög að samkeppnisstöðu fyrirtækjanna gagnvart erlendum keppinautum. Ingólfur sagði hið opinbera hafa sýnt vítavert kæruleysi í launamálum og aðhaldi undanfarið en það réttlætti alls ekki viðlíka kæruleysi í komandi kjarasamningum.