[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÖRYGGISREGLUR um flugferðir æðstu manna Bandaríkjanna komu í veg fyrir að þota Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lenti á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi.

ÖRYGGISREGLUR um flugferðir æðstu manna Bandaríkjanna komu í veg fyrir að þota Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lenti á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi.

Þar var áformað að hún ætti klukkustundar fund með Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra og héldi með honum blaðamannafund áður en hún héldi áfram för sinni vestur um haf. Albright var að koma frá Miðausturlöndum, þar sem hún átti viðræður við ráðamenn til að blása lífi í friðarviðræður Ísraelsmanna og araba. Í flugvél ráðherrans var á annan tug bandarískra blaðamanna.

Flugstjóri ráðherrans hætti við lendingu vegna þess að veður þótti of slæmt til að á hana væri hættandi. Öryggisreglur vegna ferða æðstu manna Bandaríkjanna voru hertar í kjölfar andláts Ron Browns, þáverandi viðskiptaráðherra, í flugslysi í Króatíu árið 1996.

Madeline Albright hringdi í Halldór Ásgrímsson úr flugvél sinni og harmaði í samtali þeirra að ekki gæti orðið af lendingu og fundi þeirra á Íslandi. Í samtalinu bauð hún Halldóri í opinbera heimsókn vestur um haf við fyrsta tækifæri. Þetta var í þriðja skipti á skömmum tíma sem ekki gat orðið af ætluðum fundi þeirra.