FYRIRTÆKI endurskoðenda og endurskoðandi sem starfar hjá því hafa verið dæmd til að greiða 4 milljónir króna í skaðabætur vegna fjárdráttar gjaldkera fyrirtækis, en endurskoðendafyrirtækið hafði um árabil annast endurskoðunar- og sérfræðiþjónustu við...

FYRIRTÆKI endurskoðenda og endurskoðandi sem starfar hjá því hafa verið dæmd til að greiða 4 milljónir króna í skaðabætur vegna fjárdráttar gjaldkera fyrirtækis, en endurskoðendafyrirtækið hafði um árabil annast endurskoðunar- og sérfræðiþjónustu við fyrirtækið án þess að tilkynna stjórn þess um vanskil á afstemmingu reikninga.

Á árunum 1992 til 1996 dró gjaldkeri Nathans & Olsens hf. sér fé úr sjóðum félagsins að upphæð rúmlega 32 m.kr. Fjárdráttinn faldi hann með færslum í bókhaldi án fylgiskjala og voru afstemmingar, sem hann lagði fram, falsaðar að nokkru leyti. Þegar upp um málið komst greiddi gjaldkerinn til baka um 7 m.kr., en eftir gjaldþrot hans eru ógreiddar rúmlegar 25,5 m.kr. Nathan & Olsen höfðuðu mál á hendur PricewaterhouseCoopers ehf. og einum endurskoðanda félagsins, sem var kjörinn endurskoðandi N&O, og krafðist fyrirtækið greiðslu á milljónunum sem út af stóðu.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram, að rík skylda hafi hvílt á stjórnendum N&O að hafa umsjón og eftirlit með bókhaldi félagsins. Hafi sú skylda verið sérstaklega brýn þar sem sami maður gegndi bæði bókhalds- og gjaldkerastörfum. Hins vegar hefði endurskoðandinn áritað ársreikninga fyrirtækisins án athugasemda fjögur ár í röð þótt allar afstemmingar lægju ekki fyrir við lokafrágang þeirra. Hæstiréttur segir að bæði endurskoðendum og fjármálastjóra og framkvæmdastjóra félagsins hafi verið ljóst, að innra eftirlit var ekki framkvæmt sem skyldi og afstemmingar reikninga lágu ekki fyrir, ýmist við gerð milliuppgjöra eða ársreiknings, og hafi það gerst ítrekað. Endurskoðendum hefði borið að sjá um, að afstemmingar allra bókhaldsreikninga lægju fyrir, áður en þeir luku endurskoðun ársreikningsins, og þeir hefðu átt að vekja athygli stjórnar fyrirtækisins skriflega á annmörkunum. Ekki hafi nægt að vekja athygli framkvæmdastjóra og fjármálastjóra á þessu.

Tjónið meira en þurft hefði að vera

Hæstiréttur segir atvik málsins benda til þess, að á hafi skort, að skyldu endurskoðendanna til að sannreyna eignastöðu félagsins hafi verið nægilega gætt. Hæstiréttur telur endurskoðendurna því að hluta til eiga sök á því, að ekki komst upp um fjárdráttinn fyrr en um mitt ár 1996 og beri þeir nokkra ábyrgð á því gagnvart N&O að tjónið varð meira en þurft hefði að vera, hefðu þeir staðið öðruvísi að verki. PricewaterhouseCoopers og endurskoðandinn voru dæmdir sameiginlega til að greiða N&O bætur. Þær voru taldar hæfilegar 4 milljónir króna, auk dráttarvaxta frá mars 1998 til greiðsludags.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði endurskoðendur af kröfu Natans & Olsens í lok júní sl.