LANDSBANKINN og Búnaðarbankinn hafa gert samstarfssamning við Landssímann um að bjóða ókeypis aðgang að Netinu. Skráning hófst hjá Búnaðarbanka kl.

LANDSBANKINN og Búnaðarbankinn hafa gert samstarfssamning við Landssímann um að bjóða ókeypis aðgang að Netinu. Skráning hófst hjá Búnaðarbanka kl. 19 og höfðu fleiri hundruð þegar skráð sig tveimur klukkustundum síðar, að sögn Eddu Svavarsdóttur markaðsstjóra.

"Frá og með deginum í dag gefur Landsbankinn öllum landsmönnum kost á ókeypis nettengingu í samstarfi við Landssímann. Það þýðir að Íslendingar, óháð hvar þeir eiga sín bankaviðskipti, geta skráð sig á sérstakri slóð Landsbankans og þannig fengið aðgang að Netinu," sagði Björn Líndal, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Landsbankans. "Við ætlum að opna fyrir þessa þjónustu í þessum mánuði og verður hún auglýst nánar næstu daga." Björn benti á að hingað til hefðu notendur þurft að greiða mánaðarlegt gjald fyrir aðgang að Netinu en nú þyrfti einungis að greiða fyrir notkun á síma.

"Við höfum tryggt að gæði þjónustunnar verða mikil," sagði hann "Við eins og aðrir teljum að á Netinu felist framtíðarmöguleikar fyrir bankastarfsemi. Með því að fjölga okkar viðskiptamönnum sem velja Netið sem samskiptaleið við bankann getum við bætt þjónustuna og um leið stuðlað að betri rekstri hjá bankanum sjálfum."

Edda Svavarsdóttir, markaðsstjóri Búnaðarbankans, sagði að opnað hefði verið fyrir skráningu í gærkvöldi og að fleiri hundruð manns hefðu verið búin að skrá sig tveimur tímum síðar.