Borís Jeltsín Rússlandsforseti faðmar Jiang Zemin, forseta Kína, á fundi þeirra í Peking í gær.
Borís Jeltsín Rússlandsforseti faðmar Jiang Zemin, forseta Kína, á fundi þeirra í Peking í gær.
BORÍS Jeltsín Rússlandsforseti fór í gær hörðum orðum um gagnrýni Bills Clintons Bandaríkjaforseta á hernaðaraðgerðir Rússa í Tsjetsjníu og sagði að hann mætti ekki gleyma því að Rússland er kjarnorkuveldi.

BORÍS Jeltsín Rússlandsforseti fór í gær hörðum orðum um gagnrýni Bills Clintons Bandaríkjaforseta á hernaðaraðgerðir Rússa í Tsjetsjníu og sagði að hann mætti ekki gleyma því að Rússland er kjarnorkuveldi.

Jeltsín hélt þrumuræðu um gagnrýni Clintons eftir fund sinn í Peking með Jiang Zemin, forseta Kína, sem var sagður hafa lýst yfir "fullum stuðningi" við hernaðaraðgerðir Rússa í Tsjetsjníu.

"Clinton dirfðist að beita Rússa þrýstingi í gær," sagði Jeltsín og vísaði til ummæla bandaríska forsetans þess efnis að hernaðaraðgerðirnar myndu reynast Rússum "dýrkeyptar". "Hann hlýtur að hafa gleymt því um stund hvað Rússland er. Landið á fullt vopnabúr af kjarnavopnum," hélt Jeltsín áfram. "Það hefur ekki gerst hingað til og má ekki gerast að hann stjórni því hvernig fólk lifir."

Clinton svaraði þessum ummælum í gær og sagði að sér hefði borið skylda til að gagnrýna hernaðaraðgerðir Rússa. "Ég hef ekki gleymt því [að Rússland er kjarnorkuveldi]. Ég tel ekki að hann hafi gleymt því að Bandaríkin eru mikið herveldi þegar hann var ósamþykkur því sem ég gerði í Kosovo."

Kínverjar styðja Rússa

Vladímir Pútín, forsætisráðherra Rússlands, sagði að menn ættu ekki gera of mikið úr ummælum Jeltsíns og sagði að þau væru ekki til marks um að samband Rússlands og Bandaríkjanna hefði kólnað.

Ígor Ívanov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði að Jiang hefði lýst yfir fullum stuðningi við aðgerðir Rússa "í baráttunni gegn hermdarverkamönnum og öfgamönnum í Tsjetsjníu". Hann bætti við að með ummælum sínum um Clinton hefði Jeltsín viljað árétta að Rússar og Kínverjar væru á einu máli um að Tsjetsjnía væri "óaðskiljanlegur hluti af Rússlandi og enginn hefði rétt til afskipta af innanríkismálum þess".

Sakaðir um efnavopnaárásir

Jeltsín hefur lagt kapp á að bæta samskipti Rússlands og Kína og undirritaði í gær samninga sem afmarka landamæri ríkjanna, sem hafa verið þrætuepli í margar aldir. "Hér með heyra allar landamæradeilur sögunni til," sagði Ívanov.

Sendimaður Aslans Maskhadovs, leiðtoga Tsjetsjníu, sakaði í gær Rússa um að hafa beitt eiturgasi í árásum á tvö hverfi í Grosní, höfuðstað sjálfstjórnarlýðveldisins, 5. þessa mánaðar. Hann sagði að 31 hefði látið lífið af völdum gassins og dánartalan kynni að hækka. Rússar hafa alltaf neitað því að þeir hafi beitt efnavopnum í hernaðaraðgerðunum í Tsjetsjníu.