[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lengi vel var kórónan umbun fyrir hugrekki í hernaði og tákn um æðstu tign og virðingu. Nú er farið að nota kórónur við ólíklegustu tækifæri. Hildur Einarsdóttir skoðaði hvernig kórónur og notkun þeirra hafa breyst í aldanna rás.

SAGT er að rekja megi kórónur til geislabauga sólguða. Hvað sem hæft er í því hafa nær allar þjóðir, siðmenntaðar eða ósiðmenntaðar, notað kórónuna sem tákn um virðingu og yfirráð og sem umbun fyrir hugrekki í styrjöldum. Í fornöld tíðkaðist það hjá löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins að verðlauna íþróttamenn, skáld og sigursæla hermenn með sveig á höfuðið. Sveigarnir voru einnig notaðir við ýmis hátíðleg tækifæri til dæmis báru brúðir gjarnan sveiga við giftingarathafnir. Þessi siður tíðkaðist fram á miðaldir og jafnvel fram á tuttugustu öldina því Bretar velja enn sín lárviðarskáld.

Í fornöld var kórónan þekkt sem höfuðbúnaður bæði konunga og keisara. Egypskir faraóar voru með glæsilega skreyttan höfuðbúnað og það sama átti við um konunga Assýríumanna og Persa.

Rómverskir keisarar báru einnig kórónur á höfði við ákveðin tækifæri en kórónan hafði ekki sama vægi þá og hún hafði á síðara skeiði rómverska keisaraveldisins.

Talið er að rekja megi upphafið að kórónum í Evrópu til þess er höfðingjar ósiðmenntaðra þjóðflokka báru sérstaka hjálma á höfði sem tákn um stöðu sína.

Þegar verið var að krýna breska konunga fyrir rúmlega 1000 árum var settur hjálmur á höfuð þeirra og var umgjörðin fagurlega skreytt. Annað breskt kórónuform fylgdi formi sveigsins í aðalatriðum og samanstóð af spöng sem var alsett dýrum steinum eða spöngin var úr skíragulli. Var hún bundin saman með borða aftan á hnakkanum. Þegar þessi tegund sveigs var almennt tekin upp af breska aðlinum var hin konunglega kóróna aðgreind með skrauti sem var sett ofan á sjálfa spöngina.

Skreyttur hjálmur undanfari kórónunnar

Kórónurnar á miðöldum voru annaðhvort "opnar" eða "lokaðar".

Opnu kórónurnar fylgdu formi hjálmsins nema hvað settir voru á hann einn eða fleiri bogar. Bogunum var tyllt ofan á kantinn og mættust þeir í miðjunni fyrir ofan hvirfilinn. Þar sem bogarnir mættust var venjulega kúla og ofan á henni kross. Í Frakklandi á tímum Lúðvíks fjórtánda var lilja í stað krossins.

Lokuðu kórónurnar samanstóðu einnig af spöng og bogum sem voru breiðari og gengu í kross uppi á hvirflinum en höfuðstykkið var lokað með málmi af einhverri gerð. Samkvæmt heimildum okkar er lokaða kórónan komin frá Konstantín keisara sem var uppi á árunum 306-337.

Nokkrar aldagamlar evrópskar kórónur hafa varðveist. Ein þeirra er "opin" járnkóróna sem þjóðhöfðingi Langbarða bar á sínum tíma en hún er talin vera frá 6. öld.

"Lokuð" miðaldakóróna sem notuð var á tímum hins helga rómverska keisaradæmis hefur einnig varðveist, svo dæmi séu tekin.

Margar af fyrstu kórónunum sem notaðar voru í Evrópu voru samsettar úr nokkrum hlutum. Hlutarnir voru tengdir saman með löngum pinna sem var stungið í gegnum gat á samskeytunum. Kórónurnar var því hægt að taka í sundur ef ferðast var með þær eða þegar þær voru settar í geymslu. Þetta auðveldaði það einnig að aðlaga kórónurnar höfðustærð þess sem bar þær.

Flest konungsveldi hætt að nota kórónur

Þegar komið var fram á 17. öld var hætt að tylla bogunum ofan á spangarröndina. Í staðinn voru þeir tengdir skreytingunni á spönginni sjálfri. Varð þetta til þess að lögun kórununnar breyttist þannig að hún varð flatari í miðjunni og um leið lægri.

Flest konungsveldi eru hætt að nota kórónur við opinberar athafnir nema breska konungsveldið sem notar hinar konunglegu kórónur við krýningu þjóðhöfðingja sinna. Páfagarður mun einnig nota kórónur við vígslu nýrra páfa.

Nú er þessar gömlu kórónur einkum að finna í dómkirkjum, söfnum og einkafjárhirslum konunga og drottninga.

Það má þó enn sjá kóngafólkið með eins konar vasaútgáfu af kórónum, svokallaða "tiara", við hátíðleg tækifæri.