FRAMKVÆMDANEFND Kristnihátíðarnefndar hefur ákveðið að sækja um vínveitingaleyfi í þremur 600 manna veitingatjöldum á Þingvöllum dagana 1. og 2. júlí á næsta ári þegar þúsund ára afmælis kristnitöku verður minnst.

FRAMKVÆMDANEFND Kristnihátíðarnefndar hefur ákveðið að sækja um vínveitingaleyfi í þremur 600 manna veitingatjöldum á Þingvöllum dagana 1. og 2. júlí á næsta ári þegar þúsund ára afmælis kristnitöku verður minnst. Að sögn Júlíusar Hafstein, framkvæmdastjóra Kristnihátíðarnefndar, hefur athugasemd borist frá embætti ríkislögreglustjóra vegna þessarar fyrirætlunar.

Hvorki á lýðveldishátíð 1994 né á þjóðhátíð 1974 var almenningi selt áfengi á Þingvöllum.

Að sögn Júlíusar Hafstein verður sótt um leyfi fyrir bjór- og léttvínssölu og verða drykkirnir aðeins bornir fram með mat.

"Á Þingvöllum er veitingahús og vínveitingasala fyrir, sem ekki verður komist hjá að horfa til þegar óskað verður eftir gæðaveitingasölu á Þingvöllum," segir Júlíus. "Samkeppnisaðstaða þeirra sem sækja um veitingasöluna verður því að vera fyrir hendi að einhverju leyti."

Um er að ræða sölu á léttu víni og bjór með mat innandyra í veitingatjöldum og verður áfengið selt í plastglösum og gestum óheimilt að bera drykkina út úr veitingatjöldunum.

Að sögn Júlíusar væri eðlilegt að hafa gæslu við dyr tjaldanna til að koma í veg fyrir brot á reglum um meðferð áfengis.

Á hátíðinni verður unnt að taka á móti allt að 75 þúsund manns en aðstandendur hátíðarinnar segjast munu una vel við þátttöku 50-60 þúsund gesta.