Ágúst Borgþór Sverrisson
Ágúst Borgþór Sverrisson
eftir Ágúst Borgþór Sverrisson Ormstunga 1999 - 105 bls.

ÞÆR láta lítið yfir sér smásögurnar átta í þessari bók. Á yfirborðinu eru þær átakalitlar, atburðarás jafnan einföld og persónur fáar.

Hringstiginn heitir fyrsta saga bókarinnar. Í henni er lýst endurtekningarsamri tilveru drengs sem elst upp við fáfengilegar fjölskylduaðstæður. Samskipti föður og sonar eru harla lítil en í minningu drengsins er það afar dýrmætt sem þeir hafa þó gert saman. Eitt sinn kemur hann heim saddur á sál og líkama eftir að hafa séð góða bíómynd og etið sig saddan af sjoppumat. Þessi góða tilfinning hverfur þegar skyndilegur söknuður eftir föðurnum, burthorfnum, heltekur hann. Lýsingin á söknuðinum er hvorki löng né tilfinningaþrungin. Hún hlutgerist í skák. Faðirinn hafði gjarnan teflt við drenginn og nú þegar hann kemur heim í föðurleysið ásækir hann þessi þrá: að tefla við pabba.

Persónurnar eru ekki hetjur. Þær eru yfirleitt fábrotnar, undarlegar og fullar af órum. Eftirminnilegasta sagan er Viðvaningar. Sögupersónan er einmana og útbrunninn eigandi fyrirtækis. Hann uppgötvar að hann verður aldrei ánægður, sama hversu langt hann nær í viðskiptalífinu. Þetta veldur honum kvöl og hann dregur sig inn í skel, hættir að skipta sér af daglegum rekstri og lokar sig af á skrifstofu sinni. Dagarnir fara í kynferðislega óra og söknuð yfir glötuðum tækifærum til samneytis við konur.

Lesandinn fær gjarnan að sjá persónurnar vaxa úr grasi í fáeinum línum, án þess að þær verði fyrir vikið ótrúverðugar eða klisjukenndar. Í sögunni Framtíð drengsins er aðalpersónan atyrt og hædd fyrir að hafa átt fjöllynda móður. Þetta markar manninn. Í tíu lína kafla sögunnar koma m.a. fyrir þessar setningar: "Þegar hann var drengur var hann aldrei reiður. Á fullorðinsárum sínum var hann alltaf reiður. Fyrri eiginkonu sína barði hann oft og reglulega." Snaggaralegar verður þróun einnar persónu tæpast lýst.

Viðbrögð persónanna einkennast gjarnan af æðruleysi þótt aðstæður ættu að kalla á tilfinningaþrungin eða ofsafengin viðbrögð. Þegar ákveðnu uppgjöri er náð skiptast aðalpersónurnar yfirleitt á fáum orðum, hávaðalaust og nánast af hreinu tómlæti.

Aðalsetningastíll bókarinnar, fábrotinn og skýr, gengur vel í takt við efni sagnanna. Höfundi lætur vel að mála í sterkum litum og fáum dráttum. Víða glittir í heimspekilegar vangaveltur sem hann bakar inn í hugsanir og tilsvör persónanna. Ekki eru notuð sterkari orð en nauðsyn krefur. Úrdráttur er aðalsmerki stílsins.

Hringstiginn er ekki stórvaxin bók en hún geymir marga athyglisverða sprota sem gaman væri að sjá vaxa frekar síðar, hver saga gæti verið vísir að stærra verki.

Ingi Bogi Bogason