Gluggi Leifs Breiðfjörð í Hallgrímskirkju.
Gluggi Leifs Breiðfjörð í Hallgrímskirkju.
Til 16. desember. Opið alla daga frá kl. 9-18.

GLUGGI Leifs Breiðfjörð á vesturgafli Hallgrímskirkju er sannarlega upplyfting í grámyglunni umleikis. Í skammdeginu skín hann eins og marglitur eðalsteinn og breytir drungalegri framhlið kirkjunnar úr vandræðalegu hlutfallaklúðri í mun gæfulegra og viðunandi samræmi. Með þessu níu metra háa og tveggja metra breiða glervirki, lýstu innan frá með tveim lóðréttum kastararöðum, verður ofurturn kirkjunnar öllu viðkunnanlegri um leið og glugginn dregur athygli vegfarenda frá alltof lágum og snubbóttum útidyrunum.

Ef eitthvað er athugavert við fyrirtækið er það lýsingin. Kastararaðirnar innandyra eru alltof áberandi þegar vegfarendur nálgast gluggann að kvöldlagi. Þá koma skínandi hringirnir í ljós bakvið litadýrðina og töfrar þessa veglega regnboga dofna að ófyrirsynju. Að stemma af kastarana, eða maska þá af svo lýsingin verði óbein, hlýtur að vera smámál miðað við alla vinnuna sem listamaðurinn hefur lagt í verkið.

Hitt var vel til fundið að efna til sýningar í kirkjunni á drögunum að glugganum og gefa vegfarendum kost á að sjá hvernig slíkt listaverk verður til. Leifur er lipur teiknari og skilningur hans á eðli steinds glers er einstæður. Það er hægt að dvelja við gluggann og dásama blýlagninguna, en verkið vann Leifur ásamt Ólafi syni sínum á vinnustofu sinni. Eins er gaman að fylgja eftir hugmyndavinnunni frá fyrstu drögunum að lokaútgáfunni og sjá hvernig glugginn sækir smám saman í sig formfestu og dýpt.

Við fyrstu sýn efaðist ég um að öll dekkingin sem sjá má á glerinu að innanverðu ætti rétt á sér. Ef til vill hefði Leifur átt að leyfa lit hins steinda glers að njóta sín betur, björtum og ómenguðum. Samræður við þjóðkunnan listamann á förnum vegi styrktu þessi fyrstu viðbrögð. En eftir því sem dvölin við verkið varð lengri þeim mun sannfærðari varð ég um að listamaðurinn hefði gert rétt í að dempa dýrðina. Nægar eru ýkjurnar í húsagerð kirkjunnar svo ekki sé verið að reyna að keppa við umgjörðina á sömu háværu nótunum. Með því að fara yfirvegað og öfgalaust í sakirnar nær Leifur að setja mark sitt á kirkjuna, henni og umhverfinu til mikilla heilla. Eftir slíkt afrek er ekki við öðru að búast en gluggarnir í skipinu sjálfu verði meðal komandi verkefna Leifs.

Þar gefst einmitt einstakt tækifæri til að samræma gluggana og lyfta innviðum kirkjunnar á annað og fegurra plan, því fátt gæti prýtt kirkjuskipið meir en efnislaus litadýrð sem dansaði á veggjum þess í skínandi dagsbirtunni. Eins mundi það prýða útveggi byggingarinnar ef gluggaraðir skipsins væru steindar. Leifi yrði ekki skotaskuld úr því að finna í Passíusálmum Hallgríms, eða Opinberunarbók Jóhannesar, frá Patmos, nægilegan efnivið í restina af gluggunum. Nú þegar má sjá, í viðbót við teikningarnar af vesturglugganum, sautján medalíur í anddyri og á orgellofti Hallgrímskirkju, felldar í passpartú sem er skorinn eftir fjórum hringum sem mætast í mjúkum krossi.

Það er vissulega eitthvað býsanskt við þessa hringlaga tígulkrossa, en þeir endurspegla einmitt medalíurnar sem ganga upp eftir steinda glugganum miðjum og birta okkur atburðarásina - dýrðina, valdið og virðinguna - sem var séra Hallgrími svo hugleikin í lokaversi Passíusálmanna. Þetta stighækkandi plan með krossfestingunni og upprisunni er einmitt mitt á milli góðs og ills - kölska og spúandi drekans, andspænis Míkael erkiengli og liðsmönnum hans.

Þetta þanda form er allsráðandi í myndskreytingunum sautján við Opinberunarbókina, sem nýlega kom út í fáguðu sérriti, hátt í tvö hundruð blaðsíðna, hjá Máli og menningu. Þær eru gerðar með vatns- og pastellitum; miðlum sem gefa mjúka og hraða útkomu, fulla af sveiflu og hreyfanleik. Slíkur stíll hentar ágætlega þeim dramatísku átökum sem eiga sér stað á efsta degi og birtust Jóhannesi ljóslifandi sem guðdómlegir feigðarboðar undan strönd Litlu-Asíu. Þeir fara þó enn betur á síðum bókarinnar en á veggjum Hallgrímskirkju og kemur þar til að medalíurnar eru hugsaðar sem myndskreytingar á mun smærri fleti. Eftir þessa veglegu útgáfu Máls og menningar á Opinberunarbókinni er ekki annað eftir hjá Leifi en kóróna allt saman með skreyttri viðhafnarútgáfu af Passíusálmunum. Það þarf kjark til að takast á við trúna í listinni með þeim hætti sem hann gerir, en umfram allt þarf hæfileika til að stýra slíku margþættu skreytiverkefni heilu í höfn.

Halldór Björn Runólfsson