Áslaug Thorlacius
Áslaug Thorlacius
Sú krafa hlýtur að vera gerð til Alþingis, segir Áslaug Thorlacius, að það endurskoði gamlar og úreltar ákvarðanir sínar á grundvelli breyttra forsendna.

HÁTTVIRTA ríkisstjórn.

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum stendur: ,,Markmið laga þessara er að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna, vegna staðsetningar, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur liður í gerð skipulagsáætlana."

Nú haldið þið því reyndar fram að við setningu umræddra laga hafi Fljótsdalsvirkjun verið veitt undanþága og ekki skal ég rengja það þó mér skiljist að það bráðabirgðaákvæði sé eitthvað óljóst bókað. Hinsvegar hlýtur sú krafa að vera gerð til Alþingis að það endurskoði gamlar og úreltar ákvarðanir sínar á grundvelli breyttra forsendna og viðhorfa í samfélaginu og því ætti lögformlegt umhverfismat vegna virkjunarinnar að vera sjálfsagt mál.

Fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun mun einungis uppfylla orkuþörf fyrir fjórðung þeirra afkasta sem álveri við Reyðarfjörð er ætlað að anna í framtíðinni. Því er ljóst að umræddu álveri ,,fylgir" gífurleg ,,starfsemi", svo vitnað sé í texta laganna um umhverfismat, starfsemi sem m.a. felst í því að byggja fleiri stórar virkjanir. Þarsem hvorki eru til slíkar undanþágur vegna álvers við Reyðarfjörð né annarra virkjana sem augljóslega stendur til að reisa er eðlilegt að gera ráð fyrir að vegna þeirra framkvæmda verði lögformlegt umhverfismat a.m.k. framkvæmt af samviskusemi.

Talandi um samviskusemi fýsir mig að vita hvort það sé rétt skilið hjá mér að þið teljið frummatsskýrsluna vegna álversins fullnægja skilyrðum ofangreindra laga. Í henni er þó aðeins talað um orkuþörf álversins en ekki farið nánar útí hvaðan orkan verður fengin en að hún muni koma frá orkuverum Landsvirkjunar. Getur pappír, sem fjallar á svo einangraðan hátt um álver en horfir framhjá öðrum stórframkvæmdum sem það útheimtir, þjónað hlutverki lögformlegs umhverfismats? Mér finnst það gjörsamlega útilokað. Hvað finnst ykkur?

Hvaðan hyggist þið fá orku fyrir fullbyggt álver uppá 480.000 tonn? Vitið þið um fleiri undanþágur fyrir virkjanir sem uppfylla munu þá þrjá fjórðunga sem uppá vantar þegar orkan frá Fljótsdalsvirkjun verður fullnýtt? Ef ekki, er þá ekki nauðsynlegt að meta áhrif allra fyrirsjáanlegra framkvæmda, s.s. virkjana, línulagna, spenni- og tengivirkja áður en hægt verður að semja um byggingu álversins? Eða heimila lögin um mat á umhverfisáhrifum ykkur að hefjast handa við einn þátt sem felur í sér gífurlegar skuldbindingar um stórframkvæmdir án þess að framkvæmdin sé fyrst metin í heild? Í upphafi skyldi endinn skoða, er það ekki einmitt kjarninn í þessum ágætu lögum sem gilda hér á landi?

Sem þegn þessa lands á ég rétt á svari og þarsem þið vitið jafnvel og ég að ég er síður en svo ein um að hafa áhuga á þessum spurningum vænti ég þess að skrifleg greinargerð frá ykkur birtist innan skamms á þessum sama vettvangi.

Með fyrirfram þökk fyrir skjót viðbrögð og greinargóð svör.

Höfundur er húsmóðir og myndlistarmaður.