[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TUNGLFISKUR er ekki á hvers manns diski en Rúnar Marvinsson matreiddi kykvendið í gær og reyndist það hið mesta lostæti. Þetta er líklega í fyrsta sinn, sem boðið er upp á tunglfisk, sem rétt dagsins á íslenzku veitingahúsi.

TUNGLFISKUR er ekki á hvers manns diski en Rúnar Marvinsson matreiddi kykvendið í gær og reyndist það hið mesta lostæti. Þetta er líklega í fyrsta sinn, sem boðið er upp á tunglfisk, sem rétt dagsins á íslenzku veitingahúsi.

Túnfiskveiðiskipið Byr VE veiddi umræddan tunglfisk, sem er um 90 kg, vestur af Írlandi í sumar. Að sögn Sævars Brynjólfssonar, skipstjóra og útgerðarmanns, stóð til að láta stoppa fiskinn upp og gefa Fiska- og Náttúrugripasafni Vestmannaeyja hann en þegar til kom átti safnið svona fisk. Skipið þurfti að fara í viðgerð og því varð að taka frostið af en til að fiskurinn eyðilegðist ekki var ákveðið að láta Veitingahúsið við Tjörnina fá fiskinn, "enda þekki ég strákinn hann Gunna Palla," sagði Sævar.

Úthafsfiskur

Bókin Íslenskir fiskar, útg. 1992, segir að tunglfiska hafi alloft orðið vart við landið en þetta er úthafsfiskur sem "fyrirfinnst í Miðjarðarhafi og í Atlantshafi frá Asóreyjum og Madeira, norður til Skandinavíu. Hann flækist inn í Eystrasalt og allt norður til Íslandsmiða. Einnig er hann í Indlandshafi og N-Kyrrahafi," segir ma. í bókinni.

Sem fyrr segir er umræddur fiskur um 90 kg en Byr fékk annan skömmu áður sem var helmingi stærri, að sögn Sævars. Hins vegar lenti áhöfnin í vandræðum með hann og varð að búta hann niður, hirti sumt í mat áður en afgangnum var hent. "Þetta er ágætur fiskur, svipaður og í lúðukinnum," segir Sævar en í bókinni segir að tunglfiskar séu yfirleitt 90 til 150 sm að lengd, þótt þeir sem fundist hafa við Ísland hafi verið 150 til 250 sm langir, og um 90 til 225 kg að þyngd.

Frumraun

Rúnari leizt vel á fyrirhugaða matseld en hann fékk fiskinn frosinn í vikunni. "Ég hef aldrei eldað svona fisk en mér sýnist hann ekki óáþekkur túnfiski og hámeri. Þetta er svolítið kjötkenndur fiskur og eins og tungl í laginu enda heitir hann tunglfiskur."

Þegar Rúnar fór að eiga við fiskinn, kom í ljós að þetta er brjóskfiskur með eins konar þykka hvelju. Fiskinn skar Rúnar niður í steikur og matseldin var einföld. Fiskurinn penslaður með hvítlauksolíu, kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu. Hann var síðan borinn fram með hrísgrjónum, tómatmauki, engifer og kartöflum og reyndist sérlega lostætur.