Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson
Menn ættu ekki að vera svo viðkvæmir fyrir gagnrýni, segir Sigurður Jónsson, sem er sett fram með rökum.

Vegna greinarkorns í blaðinu varðandi gæðakannanir Neytendasamtakanna á grænmeti og birtingu á niðurstöðunum í Morgunblaðinu hlaut ég ákúrur frá báðum. Það er ætíð þakkarvert þegar slíkt hendir því þá má telja víst að viðkomandi hafi lesið umrædda grein.

Gamansemi Morgunblaðsmanna

Morgunblaðsmenn töldu rétt á grundvelli tveggja kannana með nokkurra vikna millibili að slá því föstu í fyrirsögnum að "Gæðum á grænmeti hefur hrakað á síðustu vikum samkvæmt nýrri gæðakönnun." Þetta allsherjarálit styðst þó ekki við umrædda könnun sem tekur aðeins til þriggja vörutegunda (ekki alls grænmetis eins og skilja má af umræddri fyrirsögn) og segir ekkert hvenær sú breyting sem fram kemur við samanburð kannananna skeður á umræddu tímabili. Þetta taldi ég ámælisvert og stend við það. En jafnframt vil ég taka fram, að ég hefði ekki elt ólar við hvaða fjölmiðil sem er með umræddar athugasemdir. Blaðið er í þeim metum hjá mér að ég tel ómaksins vert að benda á það sem miður fer ef það snertir verslun og þjónustu.

Morgunblaðsmenn eru hins vegar svo klókir og jafnframt gamansamir, að um leið og þeir mótmæla ásökunum mínum þá staðfesta þeir hluta af því sem ég fann að vinnubrögðum Neytendasamtakanna. Þeir taka nefnilega til samanburðar kannanir á fylgi stjórnmálaflokka (ætli tilviljun ráði þessari samlíkingu á mati á grænmeti og stjórnmálamönnum?) og frásögn af niðurstöðum þeirra. Þetta segja þeir sambærilegt og eðlilegt að draga sömu ályktanir. Allir sjá að til að kanna viðhorf kjósenda þarf að fá mat margra aðila á einu fyrirbæri, stjórnmálaflokki, en það var einmitt eitt af megin aðfinnslum okkar við umræddar gæðakannanir, þ.e.a.s. að einn aðili annaðist matið. Með þessu er ekki varpað neinni rýrð á hæfni þessa sérfræðings, en varla teldu fagmenn sér sæmandi að fá einn stjórnmála- eða félagsfræðing til að meta gæði stjórnmálaflokks á tveimur tímapunktum á grundvelli takmarkaðrar sýnatöku og teldu sér síðan fært að staðhæfa að gæðin hefðu versnað eða skánað línulega á umræddu tímabili.

Ábyrgð NS ótvíræð vegna opinbers fjárstuðnings

Síðan fer Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna fram á ritvöllinn og telur mig kasta steinum úr glerhúsi. Jóhannes skýrir réttilega frá fundum okkar en skrikar þó fótur þegar hann segir að hann hafi tilkynnt mér um niðurstöður viðræðna innan sinna samtaka og síðan gert síðari gæðakönnunina. Við hittumst af tilviljun síðdegis á fundi úti í bæ og hann sagði mér hálf skömmustulegur að búið væri að gera nýja könnun með óbreyttum hætti og athugasemdum okkar hefði verið hafnað. Fjölmiðlar höfðu þegar fengið niðurstöðurnar sem birtust næsta morgun í fjölmiðlum. Þetta voru nú vinnubrögðin á þeim bænum.

Jóhannes segir ennfremur að fé skattborgara sé ekki varið til þessa verkefnis og vegna kostnaðar sé ekki hægt að nota þær aðferðir sem SVÞ hafi gert tillögu um. Njóta Neytendasamtökin ekki opinberra fjárframlaga og er ekki sífelldur söngur um að meira þurfi til? Það hefur mér heyrst, og eflaust bíða mörg verðug verkefni úrlausnar. Ekki ásaka ég Jóhannes fyrir þetta, því þar fylgir hann eflaust markaðri stefnu samtakanna og vinnur sitt starf vel. En móttöku opinberra fjármuna fylgja líka skyldur um ábyrga starfshætti samtakanna og sem hagnýtust verkefni fyrir neytendur.

Jóhannes telur að það sé mál samstarfsverkefnis Neytendasamtakanna og ASÍ félaga hvernig þeir framkvæmi þessar kannanir og veiti verslunum eðlilegt aðhald. Með öðrum orðum, aðferðir fjölmiðla og fleiri vandaðri fagaðila við mat á ástandi með því að leita álits fleiri en færri aðila er hafnað, en óvandaðri vinnubrögð látin duga. Ekki ber þetta nú vott um mikinn metnað! Og það er engu líkara en að þetta sé bara leikaraskapur einhverra starfsmanna því hvaða máli skiptir þótt neytendur verði engu nær um málið við að lesa niðurstöður slíkra slembigæðakannanna". Jóhannes segir sjálfur um niðurstöður sinna eigin kannana: "Niðurstöður þessara gæðakannana hafa verið hálfdapurlegar fyrir okkur neytendur. Þær hafa ekki aðeins sagt okkur að oft sé verið að selja slakt grænmeti. Það vekur ekki síður athygli að þær verslanir sem komu sæmilega eða vel út í fyrri könnun fá slaka einkunn í þeirri síðari. Það er aldrei á vísan að róa þegar gæði grænmetis eru metin. Þarna er í hnotskurn það sem kaupmenn hafa haldið fram. Vitanlega eru árstíðabundnar sveiflur í gæðum grænmetis, m.a. vegna þess að verslun í landinu fær ekki að flytja inn ferskasta fáanlega grænmetið allt árið, en er með háum verndartollum knúin til að selja grænmeti sem á sumum tímum ársins hefur legið í geymslum birgja um nokkurn tíma. En það er líka mismunur á einstökum vörusendingum, og síðan geta að sjálfsögðu orðið mistök í verslununum. Því er það rétt hjá Jóhannesi eins og vísað er til hér að framan, að sk.gæðakannanir sem gerðar eru á 2-3 tegundum grænmetis á sölustað með margra vikna millibili veita neytendum enga vitneskju sem þeir geta notað við val á innkaupastað.

Ég er að lokum sammála Jóhannesi um að verslunin getur og þarf að vanda sig betur. Það á hins vegar líka við um samtök og dagblöð. Menn ættu ekki að vera svo viðkvæmir fyrir gagnrýni sem er sett fram með rökum, að þeir missi af tækifærum til að bæta sig.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu