ÍSLANDSMEISTARAR KR sýndu sínar bestu hliðar þegar Keflavíkurstúlkur komu í heimsókn í Frostaskjólið í gærkvöld og unnu 66:45.

ÍSLANDSMEISTARAR KR sýndu sínar bestu hliðar þegar Keflavíkurstúlkur komu í heimsókn í Frostaskjólið í gærkvöld og unnu 66:45. Keflavík hafði unnið KR fyrr í vetur og var búist við hörkuleik, en annað kom á daginn því yfirburðir KR-stúlkna voru miklir allt frá upphafi og var staðan í hálfleik 30:18.

Guðbjörg Norðfjörð var í miklum ham í liði KR og skoraði 26 stig og þar af þrjár þriggja stiga körfur. Gréta M. Grétarsdóttir lék einnig vel og eins Linda Stefánsdóttir.

Hjá Keflavíkurstúlkum var Erla Þorsteinsdóttir langbest og gerði næstum helming stiga liðsins, eða 22. Aðrar náðu sér ekki á strik og sem dæmi um það gerði Anna María Sveinsdóttir, sem ávallt hefur verið mjög atkvæðamikil, aðeins fjögur stig.

KR fór í efsta sæti deildarinnar með sigrinum, hefur 16 stig eftir níu leiki eins og Keflavík, en hagstæðara stigahlutfall.