Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, og fleiri undirrita samningana í Ráðherrabústaðnum í gær.
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, og fleiri undirrita samningana í Ráðherrabústaðnum í gær.
FJÓRIR ráðherrar hafa undirritað samninga um tvö átaksverkefni til eflingar hrossarækt og hestamennsku.

FJÓRIR ráðherrar hafa undirritað samninga um tvö átaksverkefni til eflingar hrossarækt og hestamennsku. Þar er annars vegar um að ræða fimm ára átaksverkefni um gæðastefnu í ræktun, tamningum, þjálfun, sölu, kynningu og notkun íslenska hestsins og hins vegar sérstakt byggðatengt átaks- og tilraunaverkefni í Skagafirði, sem hlotið hefur nafnið Hestamiðstöð Íslands. Á þessum fimm árum mun ríkissjóður leggja fram 200 milljónir króna til þessara verkefna og sveitarfélagið Skagafjörður leggur fram 75 milljónir króna, þannig að samtals verða lagðar fram 275 milljónir króna í verkefnin.

Fyrri samningurinn er á milli landbúnaðarráðherra og Félags hrossabænda, Landssambands hestamannafélaga, Félags tamningamanna og Bændasamtaka Íslands. Markmið samningsins er að stuðla að fagmennsku innan greinarinnar, aðlaga stærð hrossastofnsins að markaðsaðstæðum, ræktun og sjálfbærri landnýtingu, styrkja félagslega samstöðu hrossabænda og hestamanna og auka arðsemi í greininni. Á samningstímanum munu stjórnvöld beita sér fyrir aðgerðum til að styrkja gæðastjórnun, greiða fyrir útflutningi hesta og afla Íslandi alþjóðlegrar viðurkenningar sem upprunaland íslenska hestsins. Ríkissjóður mun leggja árlega fram 15 milljónir króna til þessa verkefnis næstu 5 árin.

Tilraunaverkefni í Skagafirði

Annar samningurinn, sem undirritaður var, snýst um sérstakt byggðatengt tilraunaverkefni í Skagafirði og hlotið hefur nafnið Hestamiðstöð Íslands. Aðilar að samningnum eru forsætisráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið, menntamálaráðuneytið, samgönguráðuneytið og sveitarfélagið Skagafjörður.

Markmið þessa verkefnis er að stuðla að aukinni fagmennsku í atvinnustarfsemi sem tengist íslenska hestinum, s.s. ræktun og ferðaþjónustu. Ennfremur verður leitast við að efla hestaíþróttir og hestamennsku.

Til þess að ná þessum markmiðum fram hafa samningsaðilar stofnað Hestamiðstöð Íslands, sem er sjálfseignarstofnun og er ætlað að veita styrki til verkefna sem samrýmast markmiðum hennar, með þátttöku í samstarfsverkefnum og með hlutafjárkaupum í fyrirtækjum sem tengjast hestamennsku á einhvern hátt.

Til verkefnisins leggur ríkissjóður árlega fram 25 milljónir króna og Skagafjörður 15 milljónir króna til næstu fimm ára.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagðist við undirritun samninganna hafa þá trú að full ástæða sé til að nýta þau tækifæri og þá möguleika, þá sérstöðu og sérkenni sem íslenski hesturinn býr yfir, með því að styrkja þá til starfa sem með málefni hestsins hafa farið. Hann sagðist jafnframt telja að sá stuðningur sem lagður er í verkefnin muni koma til baka og skila sér margfalt.

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sagði að með öllum þessum peningum væru miklar skyldur settar á greinina, þannig að það reyndi á að menn nýttu þennan samning til framdráttar fyrir hestagreinina. "Það er auðvitað fagnaðarefni að við lítum ekki bara á hestinn sem landbúnaðarmál heldur byggðamál, menningarmál og ferðamál, þar er hann mjög sterkur," sagði Guðni.