KENNARAR í grunnskólum New York-borgar hafa orðið uppvísir að því að hjálpa nemendum á samræmdum prófum með því að láta þá hafa spurningar fyrirfram og jafnvel útbúa rétt svör handa þeim.

KENNARAR í grunnskólum New York-borgar hafa orðið uppvísir að því að hjálpa nemendum á samræmdum prófum með því að láta þá hafa spurningar fyrirfram og jafnvel útbúa rétt svör handa þeim.

Rannsókn á málinu hefur leitt í ljós að prófsvindlið hefur viðgengist í þrjú ár og hafa rúmlega 50 manns í 32 skólum tekið þátt í því. Er sagt að málið sé hið umfangsmesta sinnar tegundar í sögu Bandaríkjanna.

Í einu tilvikinu sögðu nemendur að þeir hefðu verið látnir nota fyrst krassblöð til að skrifa svörin en kennari hefði síðan gengið um stofuna, bent á villurnar og látið nemendur hafa "löggilt" eyðublöð. Einnig fundu rannsóknarmenn dæmi um að kennarar hefðu einfaldlega skrifað úrlausnirnar sjálfir.

Nemendur grunnskólanna í New York eru alls um 1,1 milljón. Hefur verið þrýst mjög á þá að bæta námsárangur. Formaður kennarasambands Bandaríkjanna hvatti í kjölfar rannsóknarinnar til þess að settar yrðu skýrari reglur um próf.