Í SVARI menntamálaráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar á Alþingi um úthlutun listamannalauna kemur fram að alls bárust 572 umsóknir um starfslaun listamanna á þessu ári og úthlutað var launum til 132 einstaklinga og níu leikhópa.

Í SVARI menntamálaráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar á Alþingi um úthlutun listamannalauna kemur fram að alls bárust 572 umsóknir um starfslaun listamanna á þessu ári og úthlutað var launum til 132 einstaklinga og níu leikhópa.

Hjálmar spurði ennfremur hvaða listamönnum hefði verið synjað um laun úr sjóðnum við síðustu úthlutun og birtir ráðherra nöfn 403 einstaklinga í svari sínu.

Þá spurði Hjálmar hvernig skipting umsækjanda væri eftir búsetu á landinu og kemur fram að 89% þeirra búa á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim sem eftir standa eru 4% búsett erlendis.

Loks spurði Hjálmar hvaða listamenn hefðu hlotið laun úr sjóðnum í þrjú ár eða lengur og kemur fram í svari ráðherra að 63 listamenn hafa notið starfslauna í þrjú ár eða lengur frá því núverandi reglur tóku gildi 1992.

Einnig kemur fram að í hópi rithöfunda hafa nokkrir höfundar verið samfellt á starfslaunum frá 1992 en listamenn í öðrum greinum hafa lengst notið starfslauna í þrjú ár samfellt á sama tímabili. Skipting umsækjenda eftir aldri og kyni helst nokkurn veginn í hendur við hlutföll í úthlutun og er aldurshópurinn 30-50 ára fjölmennastur (55%) en kynskiptingin er ójöfnust meðal tónskálda, þar eru karlar 83% umsækjenda, í hópi rithöfunda eru karlarnir 70% umsækjenda en meðal myndlistarmanna eru hlutföllin á hinn veginn því konur eru þar 60% umsækjenda.