Örn Arnarson, sundkappi úr SH, náði bestum árangri íslensku keppendanna á fyrsta degi Evrópumótsins í 25 metra laug sem hófst í Lissabon í Portgúal í gær. Hann setti Íslandsmet í undanrásunum í 200 metra skriðsundi og komst í A-úrslit og hafnaði þar í 7.
Örn Arnarson, sundkappi úr SH, náði bestum árangri íslensku keppendanna á fyrsta degi Evrópumótsins í 25 metra laug sem hófst í Lissabon í Portgúal í gær. Hann setti Íslandsmet í undanrásunum í 200 metra skriðsundi og komst í A-úrslit og hafnaði þar í 7. sæti. Fimm Íslandsmet féllu á mótinu í gær.

Örn synti 200 metrana í undanrásunum á 1.47,17 mínútum og bætti eigið Íslandsmet frá í nóvember í fyrra um hálfa aðra sekúndu, en metið var 1.48,65 mín. Hann var með fimmta besta tímann í undanrásunum og keppti því í 8-manna úrslitum sídegis í gær. Þar náði hann ekki að bæta tímann, synti á 1.47,89 mín. og hafnaði í sjöunda sæti. Sigurvegarinn synti á 1.44,34 mín. Hann setti síðan met í 50 metra skriðsundi er hann synti fyrsta sprett í 4x50 metra skriðsundi en sveitin setti met og sló elsta Íslandsmetið í karlaflokki. Synti Örn sinn sprett á 22,96 sekúndum og bætti eigið Íslandsmet um 0,33 sekúndur en það var frá í desember í fyrra.

Sveitin synti á 1:35,69 mínútum en eldra metið var 1:36,50 mínútur, sett í Aberdeen í Skotlandi árið 1987 af Eðvarð Þór Eðvarðssyni, Magnúsi Ólafssyni, Ingólfi Arnarsyni og Birgi Erni Birgissyni. Í sveitinni nú voru auk Arnar þeir Ómar Snævar Friðriksson, SH, Friðfinnur Kristinsson, Selfossi, og Jakob Jóhann Sveinsson, Ægi.

Friðfinnur keppti í 100 metra flugsundi og bætti Íslandsmetið bæði í undanrásum og B-úrslitum. Fyrst synti hann á 55,29 sek. og bætti met Ríkarðs Ríkarðssonar úr Ægi frá í mars en það var 55,63 sek. Í úrslitasundinu gerði hann enn betur og synti á 55,08 sek.og hafnaði í 16. sæti.

Lára Hrund Bjargardóttir keppti í 100 metra skriðsundi og synti á 57,61 sek. og setti persónulegt met. Hún hafnaði í 23. sæti af 24 keppendum og komst ekki í úrslit.

Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir varð í 20. og síðasta sæti í 100 metra baksundi, synti á 1.05,76 mín., sem er tæpum tveimur sekúndum frá besta tíma hennar.

Ómar Snævar Friðriksson keppti í 200 metra skriðsundi eins og Örn og varð í 26. og síðasta sæti á 1.55,71 mín.

Þá varð Jakob Jóhann Sveinsson í 23. sæti af 24 í 50 metra bringusundi á 30,14 sek., sem er besti tími hans í greininni.

Magnús Tryggvason, formaður landsliðsnefndar SSÍ, sagðist ánægður með árangurinn. "Það væri hroki að segja annað eftir að fimm Íslandsmet féllu. En það er greinilegt að sundfólkið er í góðri æfingu. Það kom reyndar á óvart að Örn skyldi bæta sig svona mikið í 200 metra skriðsundinu. Hann ætti því að vera til alls líklegur í baksundinu," sagði Magnús í gærkvöldi.