Skagamenn voru ekki hálfdrættingar á við Keflavíkinga þegar liðin mættust í Keflavík í gærkvöldi og máttu þola stórt tap þar sem 52 stig skildu að í lokin. Úrslit leiksins urðu 105:53 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 50:35. Skagamenn settu aðeins 18 stig í síðari hálfleik sem hlýtur að vera lakasti árangur liðsins. Þá lögðu Grindvíkingar liðsmenn KFÍ, 85:73 og Skallagrímur tapaði stórt heima fyrir Njarðvík, 106:74.
Keflvíkingar tóku leikinn þegar í sínar hendur og höfðu gestirnir lítið að gera í hendurnar á þeim að þessu sinni. Eina glætan í leik Skagamanna var þegar þeir settu 9 stig í röð í fyrri hálfleik og náðu þá næstum að vinna upp 13 stiga forskot heimamanna. En Keflvíkingar voru fljótir að setja undir lekann og eftir það var aðeins spurning um hve stór sigurinn yrði.

Síðari hálfleikur var hálfgerð martröð fyrir Skagamenn sem þá settu eins og áður sagði aðeins 18 stig. Keflvíkingar léku oft vel og liðsheildin var áberandi góð og dreifðust stigin jafnt á alla. Af frammistöðu Skagamanna að dæma virðast þeir ekki hafa burði til að leggja bestu liðin og spurning hvort liðinu tekst að halda sæti sínu í deildinni.

Slakt í Röstinni

Það hefði mátt ætla að heimamenn þyrftu að sýna Grindvíkingum að þeir gætu meira en þeir sýndu á móti Snæfelli. Sú varð ekki raunin og heimamenn áttu dapran dag en náðu samt að sigra 85:73. "Það er betra að vinna illa en tapa vel. Hér fengum við tvö stig en það er ljóst að þetta hlé hefur farið illa í okkur og við erum ekki komnir í gang aftur. Það er langur vegur framundan og nú þurfum við að komast í gírinn aftur. Okkur tókst að landa þessum sigri en við verðum að koma okkur á lappirnar aftur því nú eru erfiðir leikir framundan, þrír á einni viku," sagði Einar Einarsson, þjálfari Grindvíkinga.

Það er óhætt að taka undir orð þjálfarans um að Grindvíkingar hafi ekki náð sér á strik eftir hléið. Fyrri hálfleikur var í járnum allan tímann og liðin skiptust á að hafa forustu. Clifton Bush í liði KFÍ átti stórleik í fyrri hálfleik og var allt í öllu hjá þeim, setti niður 21 stig af þeim 36 sem gestirnir skoruðu í fyrri hálfleik. Heimamenn voru alveg úti á þekju allan fyrri hálfleik og þeim virtist alveg fyrirmunað að komast í takt við leikinn. Sú einbeiting sem sýnd var í fyrri hálfleik kom öll frá gestunum. Það var síðan rétt í lok fyrri hálfleiks að heimamenn breyttu stöðunni úr 33:33 í 46:36 sér í vil. Þessi staða í hálfleik gefur ekki rétta mynd af gangi mála í fyrri hálfleik en einhvern veginn seigluðust heimamenn þetta áfram.

Aftur settu þessir fáu áhorfendur sem mættu á leikinn sig í stellingar og bjuggust við grimmum heimamönnum en slíkt var ekki í boði. Heimamenn seigluðust þetta áfram og gestirnir áttu afar dapra byrjun þar sem þeir skoruðu ekki nema 14 stig á fyrstu 12 mínútunum. KFÍ-mönnum virtist stundum alveg fyrirmunað að skora, sama hve góð færin voru. Heimamenn héldu þokkalega á spilunum í lokin og Alexander Ermolinskij raðaði niður körfunum.

Bestur í liði gestanna var Clifton Bush sem virkar mjög sterkur og þá var Vinco Patelis sterkur í vörninni. Hjá heimamönnum var minna en meðalmennskan allsráðandi og enginn sem stóð upp úr.

Furðulétt hjá Njarðvík

Það er langt síðan við höfum unnið svona auðveldan sigur hér í Borgarnesi," sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, eftir að lið hans hafði unnið öruggan 106:74 sigur á Skallagrími. "Það var varnarleikurinn sem skóp sigurinn. Við áttum í smávægilegum vandræðum með vörnina hjá okkur í byrjun en eftir að við náðum að laga hana var aldrei spurning hvernig þetta færi. Svo hittu mínir menn líka að mjög vel og það er langt síðan skotnýtingin hefur verið almennt svona góð eins og í þessum leik. Í lokin var að sjá að Borgnesingarnir misstu móðinn. Ég hef hins vegar trú á því að lið Skallagríms komi sterkt til leiks eftir jólafríið, þeir eiga eftir að finna sig betur með nýjum útlendingi.

Leikurinn var jafn og spennandi fyrstu mínúturnar og jafnt var á flestum tölum. En upp úr miðjum fyrri hálfleik fóru Njarðvíkingar að gíra upp hraðann og raða niður þriggja stiga körfum án þess að heimamenn gætu rönd við reist. Í leikhlé var munurinn orðinn 16 stig, 55:39. Njarðvíkingar héldu síðan uppteknum hætti eftir hlé, hittu nánast hvaðan sem var af vellinum og juku forskot sitt jafnt og þétt. Segja má að liðsmenn Skallagríms ættu einn góðan sprett um miðbik seinni hálfleiksins en síðan var allur vindur úr þeim og Njarðvíkingar innsigluðu auðveldan sigur.

Björn Blöndal skrifar