Bolungarvík- Kennarar og starfsfólk Grunnskóla Bolungarvíkur nýttu sér fjarfundabúnað Íslenskrar miðlunar til námskeiðshalds á starfsdegi skólans 1. desember sl.
Bolungarvík- Kennarar og starfsfólk Grunnskóla Bolungarvíkur nýttu sér fjarfundabúnað Íslenskrar miðlunar til námskeiðshalds á starfsdegi skólans 1. desember sl.

Skólastjórnendur grunnskólans ákváðu að nýta starfsdaginn til fræðslufundar þar sem fengnir yrðu sérfræðingar til að fjalla um ofvirkni og skyld vandamál hjá börnum. Þar sem nokkur kostnaður er því samfara að fá fyrirlesara hingað til Bolungarvíkur var ákveðið að nýta þá nýju aðstöðu sem Íslensk miðlun hefur komið upp hér á staðnum og komu því kennarar og starfsfólk grunnskólans, alls um 300 manns, saman í fjarfundastofu Íslenskrar miðlunar þar sem hópurinn gat, með aðstoð fjarfundatækja, verið í beinu hljóði og myndbandssambandi við fyrirlesarana sem voru í aðalstöðvum Íslenskrar miðlunar í Reykjavík.

Þeir sem fluttu erindi á námskeiðinu voru Ólafur Ó. Guðmundsson læknir, sem fjallaði um ofvirkni og lyfjameðferð, Páll Magnússon sálfræðingur, fjallaði um framvindu greiningar og horfur, Málfríður Lorenge sálfræðingur, flutti erindi um áráttu og þráhyggjueinkenni hjá börnum og Ragna Freyja Karlsdóttir sérkennari, fjallaði um kennslufræðilegar leiðbeiningar varðandi börn með athyglisbrest samfara ofvirkni.

Þátttakendur fyrir vestan gátu svo í lok hvers fyrirlesturs varpað fram spurningu og skipst á skoðunum við sérfræðingana.

Almenn ánægja var meðal þátttakenda með þetta námskeið og ekki síst þá möguleika sem þessi fjarfundaraðstaða Íslenskrar miðlunar hér í bæ gefur til ráðstefnu og námskeiðshalds þar sem spara má verulega fjármuni sem ella færu í kostnað við ferðir og uppihald.