[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EHUD Barak, forsætisráðherra Ísraels, spáði því í gær að Ísraelar næðu friðarsamkomulagi við Sýrlendinga á næstu mánuðum ef fyrsti fundur þeirra í Washington í næstu viku gengi að óskum.

EHUD Barak, forsætisráðherra Ísraels, spáði því í gær að Ísraelar næðu friðarsamkomulagi við Sýrlendinga á næstu mánuðum ef fyrsti fundur þeirra í Washington í næstu viku gengi að óskum. Ráðgert er að Barak ræði þá við Farouq al Shara, utanríkisráðherra Sýrlands.

Barak fór lofsamlegum orðum um Hafez al-Assad, forseta Sýrlands, og þá ákvörðun hans að fallast á að friðarviðræðurnar hæfust að nýju. "Assad er ekki Ísraeli. Hann var harður andstæðingur okkar á vígvellinum," sagði Barak. "Ég get ekki ímyndað mér að hann verði auðveldur viðureignar við samningaborðið en hann er öflugur, hugrakkur leiðtogi, merkasti leiðtoginn í sögu Sýrlands. Aðeins hann getur samið við okkur um frið hinna hugrökku í nafni sýrlensku þjóðarinnar, stuðlað að því að endi verði bundinn á stríð okkar við Sýrlendinga og ófremdarástandið í Líbanon."

Barak komst til valda í júlí eftir að hafa lofað að hefja að nýju friðarviðræður við Sýrlendinga, sem var slitið fyrir tæpum fjórum árum, og flytja ísraelska herliðið frá suðurhluta Líbanons innan árs.

Barak tók fram að hann byggist ekki við því að viðræðurnar gengju snurðulaust fyrir sig þar sem Sýrlendingar væru "meistarar í að tefla á tæpasta vað".

David Levy, utanríkisráðherra Ísraels, lagði einnig áherslu á að friðarumleitanirnar yrðu erfiðar og sagði að stjórn landsins myndi ekki fallast á þá kröfu Sýrlendinga að Ísraelar létu af hendi allar Gólanhæðirnar sem þeir hernámu árið 1967.

Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddi við Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, í gær og spáði því að aldamótaárið yrði "ár friðar í Miðausturlöndum". Hún lagði áherslu á að viðræðurnar við Sýrlendinga ættu ekki að hægja á friðarviðræðum Ísraela við Palestínumenn sem á að ljúka í september á næsta ári.