FYRIR leiðtogafund Evrópusambandsins, ESB, sem hefst í dag, hefur danska stjórnin undirstrikað að undanþágur Dana frá þátttöku í hugsanlegu varnar- og hernaðarsamstarfi ESB hindri þá frá þátttöku í öllu samstarfi af því tagi, þar með talinni friðargæslu,...

FYRIR leiðtogafund Evrópusambandsins, ESB, sem hefst í dag, hefur danska stjórnin undirstrikað að undanþágur Dana frá þátttöku í hugsanlegu varnar- og hernaðarsamstarfi ESB hindri þá frá þátttöku í öllu samstarfi af því tagi, þar með talinni friðargæslu, eins og hefur verið í Kosovo.

Í vikunni sagði Anders Fogh Rasmussen, formaður Venstre, að yrði ekki efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrirsjáanlegri framtíð yrði að efna til atkvæðagreiðslu 2001 um allar undanþágur Dana frá ESB-samstarfinu. Tillögur Finna fyrir leiðtogafundinn eru léttir fyrir Dani og aðrar þjóðir, sem vilja flýta sér hægt í Evrópusamrunanum.

Það hefur legið í loftinu undanfarna mánuði að danska stjórnin hygðist skjóta sér framhjá undanþágunum með því að láta vera að taka þátt í undirbúningi hernaðaraðgerða á vegum ESB, en fá svo samþykki þingsins til þátttöku, þegar ákvörðun ESB lægi fyrir. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar,

bæði til hægri og vinstri, höfðu varað stjórnina við að smeygja sér undan undanþágunum með einhverjum hundakúnstum.

Í síðustu viku kynnti Poul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra svo fyrir stjórnarandstöðunni sjónarmið stjórnarinnar. Fyrri hugmynd um undanskot hefur verið varpað fyrir róða, heldur verður undaþágunum nákvæmlega fylgt. Það hefur í för með sér að Danir geta ekki tekið þátt í neinum hernaðaraðgerðum, heldur ekki friðargæslu eins og þeir hafa verið með í undanfarið. Frá því að leggja höfuðáherslu á slíka þátttöku fyrir tilstilli NATO verða Danir nú utan alls slíks á vegum ESB.

Þetta tilkynnti Niels Helveg Petersen utanríkisráðherra ESB-starfsbræðrum sínum á fundi á mánudag.

Hröð þróun varnarsamstarfs ESB hefur orðið Fogh Rasmussen hvatning til að stinga upp á einni allsherjar atkvæðagreiðslu um allar undanþágurnar fjórar í stað þess að taka eina og eina í einu. Þessi hraða þróun geri það óviðunandi að bíða. Bíði stjórnin með atkvæðagreiðslu um aðild að Evrópska efnahags- og myntbandalaginu, EMU, fram til ársins 2001 sé heppilegast að taka allar undanþágurnar saman.

Finnar, sem fara með forsæti í Evrópusamstarfinu fram að áramótum, leggja í dag fram tillögu sína um hvað taka eigi með í nýjan ESB-sáttmála. Í stað yfirgripsmikils sáttmála eins og Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur beitt sér fyrir stinga Finnar aðeins upp á þeim efnum, sem ekki tókst að afgreiða í Amsterdamsáttmálanum.

Áfall fyrir Prodi

Tillagan er áfall fyrir Prodi, en gleðileg tíðindi fyrir Dani, Svía og aðrar þjóðir, sem vilja flýta sér hægt í Evrópusamrunanum. Þær einfalda lífið fyrir dönsku stjórnina sem þarf þá ekki að kvíða grundvallarbreytingum, sem gerðu stjórninni skylt að efna til enn einnar þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-málefni.