NÝSIR hefur opnað skrifstofu á Seyðisfirði og hefur Seyðisfjarðarbær gert samning við fyrirtækið um að sinna atvinnumálum fyrir bæinn.

NÝSIR hefur opnað skrifstofu á Seyðisfirði og hefur Seyðisfjarðarbær gert samning við fyrirtækið um að sinna atvinnumálum fyrir bæinn.

Valtýr Sigurbjarnarson, starfsmaður Nýsis og fyrrverandi forstöðumaður Byggðastofnunar á Akureyri og bæjarstjóri í Ólafsfirði, tók til starfa á Seyðisfirði fyrir um hálfum mánuði og sinnir þessu verkefni en auk þess gerir samningurinn ráð fyrir að Stefán Þórarinsson og Sigfús Jónsson hjá Nýsi geti komið að verkefnum á vegum bæjarins.

Að sögn Ólafs H. Sigurðssonar bæjarstjóra var samningurinn við Nýsi gerður til tveggja ára og felur í sér að bærinn kaupir ákveðið magn þjónustu af fyrirtækinu,

Ólafur sagði að til þess væri ætlast að skrifstofan væri í senn fyrirtækjum á staðnum til aðstoðar og ynni að því að laða að ný fyrirtæki til bæjarins. Þá er gert ráð fyrir að Valtýr komi að nokkru leyti að því að fara í saumana á rekstri bæjarins með það í huga að finna hvað má betur fara í þeim efnum.

"Þetta er mjög spennandi verkefni," sagði Ólafur. "Menn verða að gera eitthvað á þessum stöðum til að snúa þróuninni við. Ég held að þetta séu að mörgu leyti ákveðin tímamót í atvinnumálum hjá Seyðfirðingum," sagði Ólafur. Hann sagði að samningurinn væri nokkuð dýr en vildi ekki upplýsa um kostnaðinn. Staðinn er straumur af honum með fé sem bæjarsjóður aflaði með sölu á hlutafé sínu í Skagstrendingi á liðnu ári í því skyni að stuðla að eflingu atvinnulífs í bænum.

Ólafur kvaðst vænta þess að í þessu atvinnumálaátaki yrði lögð megináhersla á að finna ný tækifæri í greinum á borð við fjarvinnslu, ýmsar þekkingargreinar og úrvinnsluiðnað, þó tæplega í sjávarútvegi. "Okkur vantar stöðugleika, sem verður að koma annars staðar frá en úr sjávarútvegsgreinum, þótt við höldum náttúrlega áfram að hlúa að þeim greinum," sagði hann.