FJÁRMÁLARÁÐHERRAR hinna fimmtán aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) hittust í Helsinki í gær til að gera lokatilraun til að ná samkomulagi um sameiginlegar aðgerðir gegn skattsvikum, fyrir leiðtogafund sambandsins sem hefst þar í borg í dag.

FJÁRMÁLARÁÐHERRAR hinna fimmtán aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) hittust í Helsinki í gær til að gera lokatilraun til að ná samkomulagi um sameiginlegar aðgerðir gegn skattsvikum, fyrir leiðtogafund sambandsins sem hefst þar í borg í dag.

Deilan, sem staðið hefur árum saman, snýst aðallega um tillögu um 20% skatt á fjármagnstekjur, sem Bretar óttast að myndi spilla fyrir viðskiptum á verðbréfamarkaðnum í Lundúnum og jafnvel flæma alþjóðlega skuldabréfamarkaðinn, sem þar er til húsa, úr landi.

Vonir um að takast myndi að leysa ágreininginn jukust á miðvikudag, er Finnar, sem ljúka formennskutímabili sínu um áramótin, lögðu fram málamiðlunartillögu sem gengur nærri kröfu Breta um að viðskipti með evru-skuldabréf (Eurobonds) verði undanþegin skattinum.

En óvænt ákvörðun franskra stjórnvalda frá því á miðvikudagskvöld um að viðhalda innflutningsbanni á brezkt nautakjöt, þvert á úrskurði ESB, hefur spillt samningsandrúmsloftinu tilfinnanlega og gerir ráðamönnum í París og Lundúnum hvorum tveggja erfitt um vik að gefa nokkuð eftir.

Frestur til að ná samkomulagi í skattamálinu rennur út þegar leiðtogafundinum lýkur á morgun, laugardag. Markmiðið hefur verið að semja um heilan lagapakka, sem meðal annars lokar fyrir þann möguleika að einstaklingar og fyrirtæki geti komið sér undan að greiða skatta í heimalandinu með því að flytja fé á milli landa innan ESB.

Þrettán aðildarríkjanna fimmtán styðja kjarnatillöguna um að leggja allt að 20% skatt á fjármagnstekjur allra ESB-borgara af innstæðum sem þeir hafa komið sér upp hjá fjármálastofnunum í ESB en utan eigin heimalands. Þýzkum stjórnvöldum er mestur akkur í að þessi skattur verði samþykktur, þar sem þau vonast til að með honum takist að stöðva flótta milljarða marka úr landinu, sem gerist með því að þýzkir borgarar koma fé sínu fyrir á reikningum í nágrannaríkjum, þar sem skattar eru lægri. Einkum hefur Lúxemborg notið góðs af þessu.