BANDARÍSK stjórnvöld hafa ákveðið að vísa úr landi rússneskum stjórnarerindreka, sem var staðinn að verki við að safna upplýsingum með hlerunartæki í utanríkisráðuneytinu í Washington.

BANDARÍSK stjórnvöld hafa ákveðið að vísa úr landi rússneskum stjórnarerindreka, sem var staðinn að verki við að safna upplýsingum með hlerunartæki í utanríkisráðuneytinu í Washington. Greindi Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, frá þessu í gær. Var erindrekanum, Stanislav Borisovitsj Gusev, gert að yfirgefa Bandaríkin innan tíu daga. Sögðu talsmenn bandaríska utanríkisráðuneytisins að málið væri alls ótengt máli bandarísks stjórnarerindreka, sem fyrir skömmu var rekinn frá Moskvu.

Klima fær formlegt umboð

VIKTOR Klima, kanzlari Austurríkis, fór fram á það í gær við forseta landsins, Thomas Klestil, að fá formlegt umboð til að mynda nýja ríkisstjórn, þrátt fyrir að samstarfsflokkur jafnaðarmannaflokks Klimas í ríkisstjórn, Þjóðarflokkurinn, hafi enn ekki fallið frá fyrri yfirlýsingum um að fara frekar í stjórnarandstöðu en að halda stjórnarsamstarfinu áfram og að Klima hafi ekki breytt afstöðu sinni til Frelsisflokksins, flokks hægrimannsins Jörgs Haiders, sem varð næststærsti flokkurinn í þingkosningunum en kanzlarinn hefur útilokað stjórnarsamstarf við.

Á þeim rúmu tveimur mánuðum sem liðnir eru frá kosningunum hafa óformlegar þreifingar farið fram milli forystumanna flokkanna. Tjáði Klima fréttamönnum að hann myndi vita um miðjan næsta mánuð, hvort endurnýjun stjórnarsamstarfsins við Þjóðarflokkinn yrði möguleg.

Flokkur Zhírínovskís aftur út

YFIRKJÖRSTJÓRN Rússlands strikaði í gær aftur "Frjálslynda lýðræðisflokk Rússlands" (LDPR) út af kjörseðlinum fyrir rússnesku þingkosningarnar hinn 19. desember nk. Vladimír Zhírínovskí, stofnandi flokksins, brást æfur við, þótt ákvörðunin komi honum vel eins og framboðsmál hans hafa æxlazt. Fyrir tveimur mánuðum lýsti kjörstjórnin framboð LDPR ólöglegt, á þeim forsendum að meðal efstu manna á framboðslistanum væru menn sem hefðu gefið upp rangar upplýsingar um tekjur sínar. Í kjölfar þess stofnaði Zhírínovskí til nýs framboðs, Zhírónovskí-blokkarinnar. Fyrir skömmu breytti kjörstjórnin fyrri úrskurði, við lítinn fögnuð Zhírínovskís, eftir að hæstiréttur Rússlands hafði úrskurðað í sambærilegu máli annars flokks. En forsætisnefnd hæstaréttar sneri á miðvikudag þeim úrskurði við og kjörstjórnin fylgdi þeim úrskurði eftir í gær.